Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggur nú til að fyrirhugað innviðagjald á farþega skemmtiferðaskipa verði lækkað verulega frá upphaflegum tillögum og að hætt verði við að afnema tollfrelsi skemmtiferðaskipa í innanlandssiglingum. Breytingarnar koma fram í nefndaráliti meirihlutans við frumvarp fjármálaráðherra vegna fjárlaga næsta árs.
Upphaflega átti gjaldið að nema 2.500 krónum á farþega á dag, en nú er lagt til að það verði 1.600 krónur. Hafnir um land allt hafa undanfarna mánuði lýst yfir þungum áhyggjum af tillögum stjórnvalda. Fjölmargar hafnir, þar á meðal Hafnir Norðurþings, hafa þegar séð merki um verulegt samdráttaráhrif, þar sem skipafélög endurmeta viðkomur og jafnvel hætta við ferðir vegna margra nýrra álaga. Samband íslenskra sveitarfélaga og Cruise Iceland hafa beitt sér af hörku í málinu og varað við áhrifunum á atvinnulíf, ferðaþjónustu og byggðafestu.
Þótt stjórnvöld dragi nú til baka hluta af fyrirhuguðum hækkunum er ljóst að áhrif boðaðra hækkanna hafa þegar haft veruleg áhrif á fjölda skipakoma fyrir árið 2026, miðað við bókunartölur.

