„Fjölskylda háhyrninga var besta jólagjöfin“

Hvalaskoðunarfyrirtækið Friends of Moby Dick hóf siglingar á Skjálfanda sumarið 2023, en rætur útgerðarinnar má rekja allt til ársins 1994 þegar Arnar Sigurðsson hóf að sigla með ferðafólk um flóann. Fyrirtækið hefur nú í vetur briddað upp á þeirri nýbreytni að bjóða hvalaskoðunarferðir yfir hávetrartímann og markar það ákveðin tímamót í ferðaþjónustu á Húsavík, enda hefur ekki áður verið siglt með ferðafólk til hvalaskoðunar út desembermánuð. Í sunnudagsviðtali Húsavík.com ræðir Örlygur Hnefill við feðginin Sólveigu Ásu Arnarsdóttur og Arnar Sigurðsson um útgerðina, ferðaþjónustu, rekstur fjölskyldufyrirtækis og það sem Skjálfandi hefur upp á að bjóða yfir vetrarmánuðina.

„Hvalaskoðun í desember hefur gengið með mestum ágætum. Við höfum verið ánægð með aðsókn sé mið tekið að árstíma og það hefur verið nóg af hval eða allt uppí 15 hnúfubakar í ferð. Þessir túrar eru afar frábrugðnir þeim sem við förum um mitt sumar þegar uppselt er í ferðir, bjart allan sólarhringinn, fjöldi hvalaskoðunarbáta úti og því mun auðveldara að finna hval. Það hefur þó verið talsvert um daga þar sem ekki hefur verið hægt að sigla vegna veðurs eða sjólags, segir Arnar.

Háhyrningar og hnúfubakar eru meðal þess sem sést hefur á flóanum í desember.

Ferðaþjónusta allt árið

Lengi hefur verið talað um að efla heilsársferðaþjónustu á Húsavík og má því segja að hér sé stigið stórt skref til þess að byggja undir það. Undanfarin ár hefur verið boðið upp á beint flug á vetrartíma frá London og Manchester til Akureyrar og hefur því verið mun meira af ferðafólki á Húsavík nú yfir vetrarmánuðina.

Við tókum þá ákvörðun að sigla út árið fyrst og fremst vegna forvitni, hvort eitthvað yrði um gesti og hvað flóinn hefði uppá að bjóða í desember, sem lítið sem ekkert hefur verið vitað um áður. Þetta er lítið fjölskyldurekið fyrirtæki og við öll í vinnu hvort sem er svo það var ekki mikil viðbót að ráða einn guide í vinnu til okkar þessa tvo mánuði,“ segir Sólveig.

Gisting og gestir koma víða að

„Við erum einnig að bjóða upp á gistingu í Gamla skólanum sem hefur verið opin meira og minna allt árið síðustu ár, núna gisti hjá okkur fjölskylda yfir jólin og fór með okkur í hvalaskoðun á jóladag. Þetta er höldum við extra skemmtilegt í svona litlu fyrirtæki þar sem návígið við gestina er svona mikið. Við höfum þegar sett árið 2026 í sölu 20 mars og út desember. Gestirnir koma víða að en sennilega mest áberandi frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Indlandi, Kína og Suður Kóreu,“ segir Sólveig.

„Vinur hefur þann kost að vera eini hvalaskoðunarbáturinn á Húsavík þar sem fólki býðst að sitja inni í upphituðum sal með stórum útsýnisgluggum sem reynist afar vel þegar kalt er í veðri. Á jóladag sigldum við með 21 farþega sem fengu það í jólagjöf að 5 dýra háhyrningafjölskylda lék listir sínar fyrir gestina en háhyrningar eru sjaldgæf sjón á Skjálfanda, þetta eru tilkomumikil dýr og var fjölskyldan forvitin um Vin og kom alveg upp að bátnum sem vakti auðvitað gríðarlega lukku gesta,“ segir Arnar.

> Sjá einnig: New Whale Watching Boat Vinur Joins Friends of Moby Dick Fleet

Sólveig segir að þau eigi fjóra túra eftir fram að áramótum og það verði spennandi að sjá hvað þau finna í flóanum þá daga.

„Rannsóknarsetrið hafði samband við okkur í nóvember og hafa aðilar þaðan komið með í nokkra túra til þess að mynda og bera kennsl á hvaða einstaklingar það eru sem enn eru eftir í flóanum. Einnig höfum við gert skemmtilegar uppgötvanir, til dæmis séð hval sem hefur einungis einu sinni sést áður og þá á Jan Mayen en það er hægt að fylgjast með þessu öllu saman á síðunni Happywhale. Þar hafa allir hvalir sitt einstaka nafn og í jólagjöf frá Jitku fengum við tvo hnúfubaka nefnda á Happywhale, þá Vin og Arnar, sem er auðvitað mjög skemmtilegt,“ segir Sólveig að lokum.

> Sjá einnig: Whales, Wheels, and Waves: Húsavík’s newest tourism ventures take off