Þetta þarft þú að vita um nýja kílómetragjaldið

Ný lög um kílómetragjald taka gildi nú um áramótin og fela í sér breytingar á því hvernig ökutæki eru gjaldskyld hér á landi. Samkvæmt lögunum ber eigendum eða skráðum umráðamönnum ökutækja að greiða gjald fyrir hvern ekinn kílómetra, óháð því hvort ökutæki er knúið bensíni, dísilolíu, rafmagni eða öðrum orkugjöfum. Gjaldskyldir eru eigendur ökutækjanna eða skráðir umráðamenn þeirra ef eigandi ökutækis er fjármögnunarleiga eða bílaleiga.

Skatturinn hefur nú birt helstu upplýsingar um hvernig gjaldtakan fer fram.

Skráning
Skrá þarf stöðu akstursmælis í síðasta lagi 20. janúar 2026 ef staðan hefur ekki verið skráð á árinu 2025, t.d. við aðalskoðun ökutækisins.

Skatturinn reiknar meðalakstur á dag út frá síðustu tveimur akstursskráningum á eignarhaldstíma núverandi eiganda/umráðamanns ökutækis og álagning gjaldsins byggir á þeim mælingum. Ef tvær skráningar liggja ekki fyrir áætlar Skatturinn meðalakstur og notar við álagningu gjaldsins.

Ef þú hefur átt ökutæki í einhvern tíma og farið með það í skoðun tvisvar og notkunin á ökutækinu er jöfn frá ári til árs, þá liggja fyrir allar upplýsingar sem Skatturinn þarf til að leggja gjaldið á. Í því tilviki þarft þú ekki að skrá stöðuna sérstaklega (enda hafi hún verið skráð á árinu 2025) heldur dugir að mæta í aðalskoðun á hverju ári.

Á ég samt að skrá stöðuna?
Aðstæður geta verið þannig að betra er að skrá aksturstöðuna núna þrátt fyrir að ein eða fleiri skráningar liggi fyrir svo sem:

  • ef þú hefur nýlega keypt ökutækið og einungis er til ein akstursskráning á þínum eignarhaldstíma.
  • ef ökutækið er nýlegt og þú mætir ekki í aðalskoðun árlega.
  • ef notkun á ökutækinu hefur breyst, minnkað eða aukist og fyrri skráningar endurspegla ekki núverandi notkun.

Nánari upplýsingar um kílómetragjald er að finna á upplýsingavef Skattsins

Þú getur skráð aksturstöðuna á Mínum síðum á island punktur is. Þar getur þú einnig séð upplýsingar um fyrri skráningar á akstursstöðu ökutækis og metið hvort ástæða er til að skrá hana aftur á þessum tímamótum.