Tónkvíslin, söngkeppni sem nemendur Framhaldsskólans á Laugum stand fyrir ár hvert, er ein metnaðarfyllsta söngkeppni framhaldsskólanema á landinu. Í vikunni hlaut keppnin styrk úr Menningarsjóði KEA. Styrkurinn var afhentur við hátíðlega athöfn í Hofi á Akureyri á mánudag, þar sem framkvæmdastýrurnar, Reykdælingurinn Dagrún Inga Pétursdóttir og Breiðdælingurinn Ríkey Perla Arnardóttir, tóku við styrknum fyrir hönd nemenda á Laugum.
Tónkvíslin hefur verið haldin af Nemendafélagi Framhaldsskólans á Laugum frá árinu 2006 og hefur fest sig í sessi sem stórviðburður í menningarlífi Þingeyinga og eitt stærsta nemendaverkefni framhaldsskóla á Norðurlandi. Skipulag, framkvæmd og uppsetning er í höndum nemenda sjálfra og sýnir verkefnið mikinn dugnað og samstöðu ungs fólks í héraðinu.
Í viðtali við Husavik.com segir Dagrún Inga að framkvæmdin í ár hafi gengið einstaklega vel, þrátt fyrir mikla vinnu síðustu vikurnar. Styrkur KEA er mikil viðurkenning á starfi nemendanna. „Það er mikill heiður að fá þessa viðurkenningu,“ segir Dagrún Inga. „Við lögðum hart að okkur og erum afar þakklát og stolt. Vonandi nýtist þessi styrkur næstu framkvæmdastjórn vel.“ Viðtalið við Dagrúnu Ingu má lesa í heild sinni hér að neðan.
Hvernig gekk framkvæmd Tónkvíslarinnar í ár?
„Mér fannst framkvæmd Tónkvíslarinnar ganga vel í ár. Við byrjuðum að hittast strax síðast liðið vor og skipuðum framkvæmdarstjórn og fleira. Nýttum svo sumarið í að afla okkur styrkja og settum svo undirbúninginn á fullt eftir að skólinn byrjaði í haust. Mér fannst þetta hafa gengið frekar smurt fyrir sig, auðvitað var mikið stress í mönnum, sérstaklega síðustu tvær vikurnar, en við vorum með gott starfsfólk með okkur í liði sem hvatti okkur áfram. Við vorum líka flottur hópur sem að vann vel saman að því að gera þetta að veruleika. Við vorum með góða hljómsveit sem byrjaði að æfa strax og skráning kláraðist, smíðahópurinn setti upp sviðið á örfáum dögum, tæknihópurinn setti upp myndavélar og tæknidót og allt gekk rosalega vel. Þetta var eðlilega mjög langt og tímafrekt ferli þvi auðvitað er mikil vinna að halda svona stóran viðburð en þetta var líka mjög skemmtilegt og mér þykir svolítið vænt um þennan tíma og sé alls ekki eftir því að hafa tekið það verkefni að mér.“
Hvernig gengur nemendum að fjármagna þennan stóra viðburð á hverju ári?
„Það er mjög mikil vinna og stundum mjög krefjandi en okkur hefur gengið vel og alltaf hefur þetta nú tekist á endanum. Við höfum haft fasta stóra styrktaraðila, auk þess finnum við fyrir miklum velvilja í kringum okkur og margir hjálpuðu okkur á einhvern hátt, bæði með fjárstyrkjum, vinningum og fleiru, og erum við afar þakklát fyrir alla þá sem styrktu okkur.“
Hvaða breytingar hafa verið á keppninni þau ár sem þú ert búin að fylgjast með henni og keppa?
„Keppnin er með nokkuð föstu sniði og hefur verið í mörg ár. Við erum að fá sömu tæknimennina ár eftir ár og þeir eru farnir að þekkja allt hér inn og út og vita nákvæmlega hvað þarf að gera. Nemendur ganga í öll verk og þeir nemendur sem eru á fyrsta ári læra af þeim sem hafa verið lengur í skólanum og hafa því gert þetta áður. Keppnin hefur breyst svolítið frá því að ég var lítil og var að byrja að fá að koma með niður í íþróttahús og horfa á. Mér finnst hún verða stærri og flottari á hverju ári og mér finnst líklegt að hún muni bara halda því áfram. Það sem mér fannst standa upp úr í ár og var öðruvísi var að það voru svo margir keppendur úr framhaldsskólanum. Í ár voru 22 atriði í heild sinni og þar af 17 frá framhaldsskólanum og 5 frá grunnskólunum í kring, sem fá að taka þátt í keppninni á hverju ári. Það hafa ekki verið svona margir keppendur síðan ég byrjaði í framhaldsskólanum, fyrir 2 árum, og mér finnst þetta mjög jákvætt. Ég vona að það haldi áfram næstu árin að vera svona mikil stemning fyrir því að keppa á Tónkvísl.“
Hvaða þýðingu hefur það fyrir ykkur í framkvæmdastjórn að fá þessa viðurkenningu frá menningarsjóði KEA?
„Það er mikill heiður að fá þessa viðurkenningu og ennþá meiri heiður að fá að taka við styrknum. Við lögðum hart að okkur við að halda þessa keppni og halda hana vel og þess vegna hefur það mikla þýðingu fyrir okkur að fá þessa viðurkenningu og þá vitum við að við höfum gert eitthvað rétt. Ég held að ég tali fyrir alla þegar ég segi að þakklæti er okkur efst í huga og við erum afar stolt og ánægð með okkar frammistöðu, og vonandi nýtist þessi styrkur næstu framkvæmdastjórn vel.“

