30 ára afmæli Rokklands á RÚV í kvöld

Skagamaðurinn Ólafur Páll Gunnarsson, betur þekktur sem Rokklandskóngurinn Óli Palli, hélt upp á 30 ára afmæli útvarpsþáttarins Rokklands með stórtónleikum í Hofi á Akureyri í nóvember. Húsvíska framleiðslufyrirtækið Castor Media sá um upptöku tónleikanna sem verða sýndir á RÚV í kvöld. Við slógum á þráðinn til Óla Palla og spurðum hann út í tilurð tónleikanna, hverju fólk geti búist við á skjánum í kvöld og vegferðina með Rokkland í þrjá áratugi.

„Ég sat við tölvuna mína í Rokkland stúdíóinu á Akranesi 27. Desember 2024 og var að hugsa um nýja árið sem var framundan og áttaði mig á því að ég væri búinn að vera með Rokkland í 30 ár, að Rokkland ætti 30 ára afmæli 2025 og fékk þá þessa hugmynd. Ég sendi Þorvaldi Bjarna þessa mynd og spurði: Er þetta eitthvað? Hann stökk á þetta eins og lax á litríka flugu,“ segir Óli Palli.

Myndin sem Óli Palli setti saman og sendi vini sínum Þorvaldi Bjarna og setti hugmyndina af stað. Afraksturinn birtist á skjáum landsmanna í kvöld.

Hvað fær fólk að sjá á skjánum í kvöld?
„Fólk fær að sjá tvær frábærar hljómsveitir, Todmobile og SinfoniaNord, og helling af frábærum söngvurum syngja 19 frábær lög úr rokksögunni frá 1967 til dagsins í dag.“

Hvað hefur breyst mest á þeim 30 árum sem Rokkland hefur starfað?
„Það sem mér finnst áberandi er að þetta er miklu meiri „bransi“ í dag en áður. Það er ekki endilega ávísun á betri músík. Sumir segjast ekki hafa gaman af jólalögum – ég hef mjög gaman af mörgu þar en mér leiðist músík um peninga. Það var minna sungið um peninga fyrir 30 árum en í dag.“

Hvernig hefur þessi vegferð verið fyrir þig, frá ungum tónlistaráhugamanni á Akranesi í að vera helsti tónlistarspekúlant þjóðarinnar?
„Mér finnst ég vera algjör lukku-Láki. Ég hef fengið að starfa við músík og útvarp í meira en 30 ár sem er allt bónus og umfram mína villtustu drauma. Minni kynslóð var ekki sagt að við gætum allt sem okkur langaði til og ég fór ekki með neinar væntingar inn í lífið – ég hafði ekki hugmynd um hvað yrði um mig þegar ég útskrifaðist úr fjölbrautaskólanum á Akranesi um jólin 1990. En ég fór daginn eftir að ég kom heim út útskriftarferðinni til Mexíkó beina leið í útvarpshúsið í Eftsleiti og fékk að hitta yfirmann tæknideildar útvarpsins og sagði honum að mig langaði hvergi að vinna annarstaðar en þar. Hann hló og sagði að það væri ekkert starf laust, en hringdi svo eftir 10 daga og bauð mér vinnu. Síðan leiddi eitt af öðru og mér finnst alltaf gaman í vinnunni.“

Ertu farinn að huga að 50 ára afmæli Rokklands eftir 20 ár?
„Nei. En Andrea Jóns vinkona mín er 20 árum eldri en ég og er enn að – bæði á Rás 2 og Dillon. Sjáum hvað setur,“ segir Óli Palli glettinn að lokum.

Í spilar Húsavík.com er hægt að sjá dagskrárkynningu fyrri tónleikana í kvöld:

Í samræmi við ritstjórnarstefnu Húsavík.com skal tekið fram að Castor miðlun er systurfélag Könnunarsögusafnsins sem er eigandi og útgefandi fréttavefsins Húsavík.com