Áramótakveðja frá Markþingi

Það er góður siður að líta yfir farinn veg í lok hvers árs og velta fyrir sér hverig næsta ár muni verða. Eitt veit ég þó fyrir víst að ég veit ekki neitt um það og hef því tamið mér að hafa væntingarnar í hófi og taka því sem kemur með opnum faðmi, hvort sem það er gleði eða sorg. Það ár sem nú er að líða er gott dæmi um óvissuna hjá okkur í Markþingi. Við höfðum tvo starfsmenn í 40% vinnu í upphafi árs og lögðum upp verkefnalista fyrir árið miðað við það. Á vormánuðum sögðu báðir starfsmennirnir upp og það varð til þess að við fórum í naflaskoðun og höfðum mjög gott af því. Á aðalfundi félagsins var lögð til nafnabreyting sem var samþykkt og Húsavíkurstofa varð aftur að Markþingi. Í nafninu okkar í dag felst í raun okkar aðal áhersla og stefna, við erum markaðstól í Norðurþingi, aðallega. Við ákváðum að ráða ekki fastan starfmann heldur nota tækifærið og snúa okkur nánast alfarið að markaðssetningu á svæðinu okkar, sem hefur upp á svo margt að bjóða. Meðal annars sótti Heiðar Hrafn ferðaráðstefnuna Vestnorden í ár en hún var haldin á Akureyri. Þar var hann fulltrúi allra okkar félaga og svæðisins í heild. Mögulega verður meira gert af þessu í framtíðinni, sjáum hvað setur og hverju okkur finnst þetta skila.

Fyrsta mál á dagskrá var að ganga frá nýrri heimasíðu því það er jú okkar heimilisfang á veraldarvefnum og mjög mikilvægt að hún virki vel og grípi þá sem um hana fara. Við leituðum tilboða hjá þremur fyrirtækjum sem voru mjög ólík. Eftir að hafa vegið og metið alla kostina var ákveðið að stefna á stjörnurnar og taka tilboði Hugsmiðjunnar sem bauðst til að sérsmíða fyrir okkur síðu sem hentaði starfseminni okkar fullkomlega. Það er búið að vera mjög lærdómsríkt ferli að vinna með því fagfólki sem þar er í hverri stöðu alveg frá hönnunarferlinu og áfram. Þess má líka geta að Hugsmiðjan er með starfsmann, Arnór Aðalstein, staðsettan á Húsavík og var hann okkar besta manni Heiðari Hrafni, sem hefur sett allt efni inná síðuna með með þvílíkum sóma, innan handar og það var ómetanlegt. Síðan heldur utan um alla okkar aðildarfélaga og helstu náttúruperlur í umhverfinu auk þess sem við gerum göngu- og hjólaleiðum góð skil. Þrátt fyrir að www.visithusavik.is hafi farið í loftið 19. desember sl. þá er hún enn listaverk í vinnslu. Það sem kemur til að skipta okkur heimamennina mestu máli er auðvitað stórglæsilegt viðburðadagatal þar sem allir viðburðir birtast í réttri tímaröð. Það er ábyrgð viðburðahaldara að setja inn sinn viðburð en við erum öllum innan handar, alltaf.
Í þeirri vinnu að setja inn aðildarfélagana á nýju heimasíðuna fannst okkur vanta dálítið uppá að allir þjónustuaðilar væru meðlimir í Markþingi. Við fórum því í átak og biðluðum til allra sem uppá vantaði að vera með okkur því það eru engin ný sannindi að sameinuð erum við sterkari. Það gengu 13 nýjir þjónustuaðilar í Markþing á haustdögum sem er algjörlega sturlað og við bjóðum þá alla hjartanlega velkomna og hlökkum til framhaldsins.

Við fengum Örlyg okkar Hnefil Örlygsson til að búa til myndbandið sem prýðir forsíðu heimasíðunnar og erum við gríðarlega ánægð með það. Einnig gerði hann fyrir okkur stutt myndband sem rúllar í góðum félagsskap á tveimur stórum skjám í millilandaflugstöðinni á Akureyri og mun gera það á meðan Easy Jet flýgur á milli. Undirrituð fór þar í gegn í byrjun desember og það var frábært að sjá það, vonandi grípur það eitthvað af farþegunum sem lenda á Akureyri.

Þegar ég ræði þetta svona út á við þá fæ ég stundum þessa spurningu, en af hverju eruð þið að reyna að fá fólk yfir á þessum tíma, það er ekkert um að vera hérna? Það er vissulega alveg rétt, hér eru seglin víða dregin niður yfir svartasta skammdegið en svo er samt ekki alls staðar. Sjóböðin loka aldrei, hér eru fullt af fallegum gistiheimilum sem loka aldrei, Vinurinn hjá Friends of Moby Dick siglir alla daga ef veður leyfir og í þessu tíðarfari er hægt að nýta dagsbirtuna til allskonar útivistar og ef það væri snjór þá væri útivistin bara aðeins öðruvísi. Það er vissulega ekki mikið úrval af veitingastöðum en Nettó og Krambúðin í sameiningu loka ekki einn dag á árinu og þjónustustigið hérna er að mínu mati frekar hátt fyrir okkar litla krúttlega bæjarfélag. Yfir svartasta skammdegið eigum við að fá þá yfir sem leita eftir kyrrðinni, leita eftir einverunni og leita að núvitundinni.

Fyrir þá getur Húsvík verið besti áfangastaður í heimi að mínu mati og ég segi því bara seglin upp og fulla ferð áfram!

Að lokum, þetta var klárlega ár Húsavíkurgjafabréfanna og fór salan á þeim fram úr okkar björtustu vonum. Þegar Gunnhildur lokaði kassanum á aðfangadag stóð salan í 18,5 milljónum sem er met. Það gleður mikið því með því að gefa Húsavíkurgjafabréf gefur þú í raun flest sem Norðurþing hefur uppá að bjóða og verslunin helst í heimabyggð sem er mjög mikilvægt fyrir okkur öll. Því segi ég lifi Húsavíkurgjafabréfin sem góð gjöf við öll tækifæri, ekki bara jólagjöf.

Megi nýja árið verða okkur öllum gott og gefandi og fullt af kærleika og gleði,

Helga Björg Sigurðardóttir
Stjórnarformaður Markþings

About Helga Björg Sigurðardóttir

View all posts by Helga Björg Sigurðardóttir →