„Draumur að eyða þrítugs afmælinu á Húsavík“

Ryan Pritchard frá Bretlandi átti þann draum að fagna þrítugsafmæli sínu á Húsavík. Hann er nú á hringferð um Ísland með maka sínum og kom til Húsavíkur í gær. Heimsóknin var sú fyrsta til Húsavíkur, en staðurinn hafði lengi verið á óskalistanum og þrátt fyrir mikinn áhuga á Eurovision þá er draumurinn talsvert eldri en myndin.

„Ég hef haft mikinn áhuga á Íslandi í mörg ár og vissi af Húsavík löngu áður en allt Eurovision-ævintýrið hófst,“ segir Ryan. „Mig langaði alltaf að finna eitthvað öðruvísi, ég er meira fyrir kalda staði og kalt veður.“

Afmælisdaginn eyddi hann í að ganga um bæinn og taka inn stemninguna. „Það er sérstakt að sjá hluti með eigin augum sem maður hefur séð í kvikmyndinni, sérstaklega bátana í höfninni,“ segir hann.

Ryan er mikill aðdáandi Eurovision keppninnar og myndarinnar. Hann segir að þrátt fyrir erfiða tíma í heiminum muni Eurovision koma til baka og að keppnin skipti miklu máli. „Eurovision hefur einstakt gildi, hún sameinar fólk og lönd,“ segir hann.

Aðspurður um upplifunina á Húsavík segir Ryan einfaldlega: „Mig langar að þakka öllum á Húsavík fyrir að vera svona hlý og opinská gagnvart Eurovision og þeirri ferðaþjónustu sem henni hefur fylgt. Þið eigið ótrúlega fallegan bæ og ættuð að vera afar stolt af öllu hér. Ísland mun að eilífu eiga sérstakan stað í hjarta mínu og ég mun alltaf standa með Íslandi í Eurovision!“