Eldur kom upp í iðnaðarhúsnæði í eigu Garðvíkur við Haukamýri á Húsavík í morgunsárið. Slökkvilið Norðurþings var kallað út klukkan 6.16 og þegar fyrstu viðbragðsaðilar komu á vettvang logaði töluverður eldur í húsinu. Þetta hefur verið annasamur mánuður hjá Slökkviliði Norðurþings en skemmst er að minnast elda sem loguðu í gróðri á gamlárskvöld.
„Við þurftum að rjúfa þakið til að hleypa hita og reyk út og húsið er mjög illa farið,“ segir Henning Þór Aðalmundsson, slökkviliðsstjóri í Norðurþingi í samtali við Húasvík.com. Hann segir að slökkvistarfið hafi gengið vel og að nú sé verið að vinna að því að slökkva síðustu glóðir og að slökkva í eldhreiðrum í húsnæðinu. Ekkert bendir til annars en að húsið hafi verið mannlaust þegar eldurinn kom upp.
Myndband frá slökkvistörfum á vettvangi í morgun:


