Friðgeir Sigtryggsson og börn hans taka við rekstri Dalakofans

Friðgeir Sigtryggsson og börn hans Ingibjörg Arna og Ólafur Ísak taka í dag við rekstri veitingastaðarins og verslunarinnar Dalakofans á Laugum. N1 auglýsti í sumar eftir leigutaka til að annast reksturinn og segir Friðgeir að áhersla þeirra hafi verið á að fá heimafólk í reksturinn.

„Maður er búinn að horfa á Dalakofann í gegnum tíðina; þetta er vinsæll staður og mig langaði að lyfta honum enn meira upp,“ segir Friðgeir. Hann leggur áherslu á að staðurinn sé mikilvægur bæði fyrir samfélagið í Reykjadal og ferðaþjónustu á svæðinu, enda staðsettur við þjóðveg 1 í hinum fagra Reykjadal og í nálægð við marga af vinsælustu ferðamannastöðum Íslands, Goðafoss, Mývatnssveit og Húsavík.

Friðgeir hefur starfað í ferðaþjónustu á svæðinu um árabil og telur reksturinn falla vel að þeirri starfsemi sem fjölskyldan rekur nú þegar, þar á meðal íbúðaleigu og tjaldsvæði á Laugum. Svæðið sé í vexti og eftirspurn eftir þjónustu aukist jafnt og þétt.

Þekking og reynsla liggur víða í fjölskyldunni: Ólafur Ísak hefur margra ára reynslu úr veitingabransanum sem þjónn og kokkur, Ingibjörg Arna hefur starfað talsvert í Dalakofanum með skóla og á sumrin undanfarin ár og Friðgeir býr yfir reynslu úr matvöruverslun í Reykjavík. „Ég rak matvöruverslun í Reykjavík, fyrir svo mörgum árum að ég kann ekki að telja þau, en sú reynsla mun gagnast í að reka verslunina, svo við komum öll að þessu verkefni með mismunandi reynslu og fullt af Þingeyskum metnaði,“ segir Friðgeir.

Húsavík.com óskar nýjum rekstraraðilum til hamingju og velfarnaðar á komandi árum.

Frá framboðsfundi Katrínar Jakobsdóttur í Dalakofanum 2024.