Á morgun, miðvikudag, opnar gæludýraverslunin VOFF Garðarshólmi í miðbæ Húsavíkur, í því húsnæði sem un áratugi hýsti bakarí í miðbæ Húsavíkur, en en Garðarshólmi rak áður minni gæludýraverslun í fyrrum húsnæði Víkurrafs, sem nú verður hið nýja bakarí.
„Við erum að flytja gæludýrabúðina hingað þar sem bakaríið sjálft er nú í uppbyggingu í hinu húsnæðinu,“ segir Birgitta Bjarney Svavarsdóttir verslunarstjóri. Hún var ásamt dóttur sinni, Kristnýju Ósk Geirsdóttur, í óða önn við að koma vörum fyrir þegar blaðamaður leit við í nýju versluninni síðdegis í gær.
Birgitta segir mikilvægt að halda áfram rekstri gæludýraverslunar í bænum þrátt fyrir breytingar á húsnæði. „Við vildum alls ekki leggja þessa búð niður, þótt við værum að taka hitt rýmið undir bakarí. Þetta húsnæði stóð autt og við náðum góðu samkomulagi við Íslandsbanka sem er eigandi húsnæðisins. Það skiptir okkur miklu máli að það sé líf og starfsemi í öllum miðbænum.“
Hún bætir við að sumarvertíðin lofi góðu fyrir miðbæinn. „Það er sérstaklega ánægjulegt að frænka mín, Kristrún Ýr, og maður hennar, Axel Árnason, muni opna listsmiðju og gallerí hér við hliðina í sumar. Þá verður sannarlega líf í miðbænum á ný,“ segir Birgitta með bros á vör.
> Sjá einnig: Birgitta og Geir opna bakarí á Öskjureitnum

