Þorrablót Tjörnesinga var haldið í Sólvangi um helgina og var þar að sjálfsögðu fullt hús gesta og mikil gleði, eins og ætíð þegar Tjörnesingar koma saman.
„Ég átti yngsta nefndarmanninn og hún stóð sig stórkostlega vel, eins og hún á ætt til. Þetta var í alla staði stórkostlegt blót, góð skemmtiatriði og Siglfirðingarnir Stulli og Tóti góðir að vanda,“ segir Bjarni Sigurður Aðalgeirsson, uppgjafarbóndi og nú klósettvörður á tjaldsvæðinu á Mánárbakka, og faðir Sunnu Mjallar, nefndarmanns.
„Skemmtiatriðin snerust auðvitað mikið um auðæfi okkar hér í sveitinni. Meðal annars var dreift á borðin 10 þúsund króna seðlum frá Seðlabanka Tjörnesinga,“ segir Bjarni og hlær, en hann var að keyra eftir Miklubraut í Reykjavík þegar blaðamaður náði af honum tali, og sagðist geta verið staddur á töluvert betri stað.
Mynd af hinni öflugu þorrablótsnefnd hefur slegið í gegn á Facebook síðustu daga, enda kraftmikil nefnd þar á ferð. „Ekki eitt feilskot hjá þessari öflugu nefnd,“ skrifar þingmaðurinn Þorgrímur Sigmundsson undir myndina sem Aðalsteinn J. Halldórsson, oddviti (og konungur) Tjörneshrepps, birti á síðu sinni. „Sterk nefnd,“ skrifar Magnús Halldórsson hjá Íslandsstofu og Karl Hreiðarsson spyr: „Er í lagi að ég prenti þessa mynd á striga til að hafa á vegg heima?“
„Eins og undanfarin ár voru aldursforsetar sveitarinnar á þorrablótinu í Sólvangi, pabbi að verða níræður að árunu og Jóel 95 ára. Þeir fóru síðastir manna heim, löngu eftir að hljómsveitin pakkaði saman,“ segir Bjarni að lokum.



