Helena Eydís vill leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi

Helena Eydís Ingólfsdóttir hefur gefið kost á sér í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Hún segir í samtali við Húsavík.com eingöngu sækjast eftir oddvitasætinu og að hún muni ekki taka sæti neðar á lista.

„Í mínum huga munu kosningarnar snúast fyrst og fremst um fjármál sveitarfélagsins og hvernig þeim verður stýrt,“ segir Helena. Hún bendir á að útsvarstekjur sveitarfélagsins hafi dregist verulega saman eftir að starfsemi PCC lagðist af. „Við erum að fá um 50 milljónum króna minna í hverjum mánuði í útsvarstekjur en þegar PCC var í gangi. Næsta kjörtímabil mun því einkennast af erfiðum ákvörðunum og það verður þörf á afar ábyrgri fjármálastjórnun,“ segir hún.

Þrátt fyrir að víða um land hafi flokkar rætt um erfiðleika við að manna framboðslista, segir Helena að staðan sé önnur hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðurþingi. „Það er mikill áhugi á að sitja á lista Sjálfstæðisflokksins og ég hef heyrt að störf uppstillingarnefndar gangi vel,“ segir hún.

> Sjá einnig: Allar fréttir tengdar sveitarstjórnarkosningum 2026

Kristinn Jóhann og Hafrún ekki fram

Ljóst er að breytingar verða á framboðslista flokksins, en Kristinn Jóhann Lund, sem kom inn í sveitarstjórn sem varamaður Hafrúnar Olgeirsdóttur, mun ekki sækjast eftir áframhaldandi setu. Hafrún hafði áður gefið út í viðtali við Húsavík.com að hún myndi láta af störfum við lok kjörtímabilsins.

Helena segist vonast til að listi flokksins liggi fyrir snemma í febrúar. „Ég vona að listi liggi fyrir fljótlega í febrúar og þá verður gengið til félagsfundar sjálfstæðisfélaganna í Norðurþingi,“ segir hún að lokum.

Helena tók fyrst sæti í sveitarstjórn Norðurþings árið 2018 og er nú að ljúka sínu öðru kjörtímabili. Hún hefur meðal annars verið formaður Fjölskylduráðs og Byggðarráðs, setið í fjölda nefnda og ráða fyrir hönd Norðurþings, þar á meðal í stjórn SSNE. Þá er hún jafnframt stjórnarformaður Græns iðngarðs á Bakka.