Helguskúr horfinn

Helguskúr er nú horfinn af hafnarsvæðinu á Húsavík eftir niðurrif síðustu daga. Vinna hófst á mánudag þegar svæðið var girt af, og á þriðjudag voru gluggar og annað lauslegt fjarlægt af húsinu. Á þriðjudag og miðvikudag var unnið að því að tæma húsið og á fimmtudag var byrjað að rífa klæðningu af húsinu. Í dag, föstudag, var skúrinn svo felldur. Verktakar voru á svæðinu við lokafrágang um klukkan fjögur síðdegis þegar blaðamaður ók þar hjá, en þá var húsið að mestu horfið.

Helguskúr var reistur árið 1958. Helgi Héðinsson lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands þann 5. febrúar í fyrra.

Meðfylgjandi mynd er frá heimsókn þáverandi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, í Helguskúr árið 2017, og var sú heimsókn eftirminnileg og setti raunar úr skorðum alla dagskrá opinberrar heimsóknar forseta, enda dvaldi Guðni sem hefur mikið yndi af sögum, lengi og hlustaði á frásagnir fastagesta.