Ísland einn jaðar á einum stað? 

Umræða um jöfnun atkvæðavægis á Íslandi er bæði eðlileg og mikilvæg. Lýðræðislegt jafnræði  er grundvallargildi og fá deila um að atkvæði landsmanna eigi að vega jafnt. Sú umræða verður  að taka mið af því að horft sé til þess hvernig samfélagið er skipulagt og hvaða afleiðingar það  hefur þegar vald, þjónusta og ákvarðanataka þjappast sífellt meira saman á einn stað.

Íslenskt samfélag hefur um árabil þróast í þá átt að miða í vaxandi mæli við suðvesturhorn  landsins. Kerfi, stjórnsýsla og þjónusta ganga í reynd út frá því að þar sé miðjan og að aðrir  landshlutar aðlagi sig að henni. Þessi þróun er ekki einstök. Hún er orðin mun öfgakenndari hér  en í flestum sambærilegum löndum ekki síst vegna smæðar samfélagsins.

Allt á einum stað

Jöfn atkvæði tryggja ekki sjálfkrafa jafna stöðu fólks í daglegu lífi. Lýðræði snýst ekki aðeins um  kosningar heldur einnig um raunverulegt aðgengi að þjónustu, tækifærum og ákvarðanatöku.  Þegar megnið af sérhæfðri þjónustu og opinberum störfum er staðsett á einum stað verður  jafnræðið aðeins formlegt fremur en raunverulegt.

Reynsla annarra landa sýnir skýrt hvert slík þróun getur leitt. Í Frakklandi hefur samþjöppun í  kringum París skapað djúpa gjá milli miðju og jaðarsvæða með félagslegri fjarlægð og vantrausti  í kjölfarið. Í Svíþjóð hefur stöðug fækkun í dreifðum byggðum leitt til lokunar innviða og aukins  brottflutnings. Með markvissri valddreifingu líkt og í Noregi hefur tekist betur að viðhalda  jafnvægi í byggðaþróun.

Á Íslandi magnast þessi áhrif hraðar en víðast hvar. Þegar fólksfjölgun, fjárfestingar og tækifæri  safnast á einn stað verður búsetuval fólks sífellt þrengra. Mörg flytja, ekki vegna þess að þau vilji  það heldur vegna þess að kerfið gerir ráð fyrir því. Þá er vandinn ekki einstaklinganna heldur  skipulagið sjálft.

Kerfisbundið gegn dreifðri byggð

Samþjöppun á sér sjaldnast stað vegna einnar stórar ákvörðunar. Hún verður til í gegnum fjölda  smárra ákvarðana sem allar virðast skynsamlegar einar og sér; sameining þjónustu, miðlæg  stjórnun og hagkvæmnissjónarmið. Saman mynda þær þó kerfi sem vinnur kerfisbundið gegn  dreifðri byggð.

Sterkar landsbyggðir eru ekki rómantísk hugmynd heldur grundvallarinnviður samfélagsins. Það tengist fæðuöryggi, orkuöryggi, verðmætasköpun og viðbragðsgetu þjóðarinnar. Lönd sem hafa  leyft stórum svæðum að veikjast samfélagslega glíma í dag við mikinn kostnað við að reyna að  snúa þróuninni við. Oft án árangurs. Gefið að vilji sé til staðar.

Hefur fólk raunverulegt val?

Jöfnun atkvæðavægis getur verið rétt og sanngjarnt. Það verður að fara saman við markvissa  valddreifingu. Annars er hætt við að lýðræðið verði jafnt í orði en ekki á borði. Raunverulegt  jafnræði felst ekki aðeins í því hvernig kosið er heldur í því hvernig landið allt er byggt upp.

Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er því ekki hvort öll eigi jafnt atkvæði heldur hvort við  viljum samfélag sem gengur út frá því að Ísland sé eitt þjónustusvæði eða land þar sem fólk  getur raunverulega valið sér búsetu án þess að þurfa að fórna aðgengi, tækifærum eða  lífsgæðum.

Ef kerfið gerir ráð fyrir einni miðju og mörgum jaðrum þá er hætt við að landið allt verði jaðar að  lokum.

Hjálmar Bogi Hafliðason
forseti sveitarstjórnar Norðurþings