Nemendur í Reykjahlíðarskóla tóku á dögunum upp áramótaþátt í skólanum sem birtist á Húsavík.com. Þátturinn er afrakstur námskeiðs sem Castor Miðlun var með í skólanum nú í desember. Hluti nemendahópsins vann að því að safna fréttum úr skólanum og nærsveitum á meðan aðrir lærðu á ýmis tæki og tól til að búa til þátt.
Nemendur stýðu svo sjálfir upptöku, myndavélum og hljóði og stóðu sig með stakri prýði. Hægt er að hofa á þáttinn í spilaranum hér að neðan.
„Þetta eru líflegir og skapandi krakkar sem mjög gaman er að vinna með. Mér fannst sérstaklega gaman að fylgjast með því hvernig tókst að virkja þau í þessu verkefni og hvað þau tóku sín hlutverk alvarlega og sinntu þeim af festu,“ segir Huld Aðalbjarnardóttir skólastjóri Reykjahlíðarskóla.
Um helgina voru nemendur svo í kvikmyndasmiðju þar sem unnið var með sögur af Jólasveinunum í Dimmuborgum.

