Páll Óskar og Benni Hemm Hemm halda tónleika með Kirkjukór Húsavíkur

Föstudagskvöldið 6. febrúar klukkan 20.00 munu þeir Páll Óskar og Benni Hemm Hemm halda tónleika í Húsavíkurkirkju ásamt Kirkjukór Húsavíkur. Tónleikarnir eru hluti af kirkjuferð þeirra félaga um landið, þar sem þeir flytja efni af nýrri sameiginlegri plötu sinni Alveg ásamt völdum eldri lögum, allt í glænýjum útsetningum.

Hjálmar Bogi Hafliðason, varaformaður Kirkjukórs Húsavíkur, segir í samtali við Húsavík.com að verkefnið hafi komið til skömmu fyrir jól. „Benni hafði samband og sagði mér frá áhuga þeirra á að fara um landið. Þeir slógu rækilega í gegn í fyrra með plötunni Alveg og lagið Eitt af blómunum varð vinsælasta lag Rásar 2 árið 2025,“ segir Hjálmar. Hann bætir við að lögin einkennist af fallegum textum og melódíum og að Benni hafi verið að útsetja þau sérstaklega fyrir blandaðar raddir, meðal annars í samvinnu við kórinn.

Hjálmar segir að þetta sé spennandi verkefni og að tónleikarnir muni einkennast af hlýju og nánd. „Páll Óskar mun ganga um kirkjuna og syngja meðal áhorfenda, þannig að upplifunin verður mjög persónuleg og náin,“ segir Hjálmar. Samstarf Palla og Benna á rætur að rekja til þess að RÚV leiddi þá saman í tengslum við sjónvarpsþáttinn Hljómskálann. Upphaflega stóð aðeins til að semja eitt lag, en fljótlega varð úr heil plata.  Kirkjan opnar hálftíma fyrir tónleika og sætaval er frjálst.

Kirkjukór Húsavíkur á tónleikum í desember.