Öryggismyndavélar um heim allan eru oftast notaðar til að góma þá sem hafa gert eitthvað misjafnt. Á Húsavík virðast þær hins vegar nýtast best til að reyna að leysa ráðgátur um dularfull góðverk.
Óli Ásgeir Stueland og Hulda Jónasdóttir búa í Holtagerði og urðu málsins fyrst vör: „Vaknaði í morgun og var að fara að ganga í vinnu. Það var nýfallinn snjór og þegar ég kom út á bílastæði sá ég í nýföllnum snjónum að einhver hafði komið upp á bílastæði og gengið hringinn um annan bílinn minn, hinn var inni í bílskúr,“ skrifar Óli á Facebook og heldur áfram: „Þetta fannst mér mjög skrítið og þess vegna ákvað ég að rekja sporin, enda var það nokkuð gott í nýföllnum snjónum. Ég rak sporin niður í Holtagerði þar sem aðilinn hafði farið í kringum alla nokkra bíla, og þaðan fór hann upp í Háagerði þar sem ég missti sporin. Að sjálfsögðu grunaði mann að bara væri manneskja á ferð sem hefði eitthvað misjafnt í huga, líka miðað við hvernig sporin í kringum bílana voru.“
Dularfullt góðverk
„Þegar ég var síðan að ganga í vinnuna mundi ég eftir litlu krúttlegu eftirlitsmyndavélinni minni á húsinu sem vaktar allt bílastæðið. Kíkti í vélina og þá kom nú annað á daginn, ekki þjófur heldur aðili að hreinsa snjó af bílum, takk fyrir,“ skrifar Óli.
Viðbrögð bæjarbúa hafa verið einstaklega hlý. Margir hafa lýst því yfir að ekkert sé betra en að fá svona þjónustu óvænt og í byrjun árs, þó sumir viðurkenni fúslega að hugurinn hafi fyrst farið í neikvæðar áttir þegar sporin sáust. Í umræðunni var jafnvel grínast með að eina sem vantaði á hinn dularfulla snjóhreinsara væri jólasveinahúfa, og þá helst Kertasníkis.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, tók einnig þátt í umræðunni með léttum tón og sýna viðbrögðin vel þann hlýja og samheldna anda sem einkennt hefur samfélagið á Húsavík.
Í samtali við Húsavík.com segist Katrín hafa fengið fulla þjónustu frá jólasveininum. „Ég heyrði að þetta hefði verið Kertasníkir á ferð. Ég held að það hafi verið best skafið heima hjá mér, sópað af báðum bílunum og mokaðir göngustígar allt í kringum húsið,“ segir Katrín.
Hver sá eða sú sem stóð að þessum dularfullu góðverkum hefur þó enn ekki gefið sig fram. Ábendingar um hver velgjörðarmaðurinn gæti verið eru því vel þegnar. Netfang fyrir ábendingar: orly@husavik.com

