Það verða skörp skil milli vikna í Skúlagarð á næstunni: Þorrablót Keldhverfinga með stórdansleik og svo ‚bóka-retreat’ í kyrrð og sveitasælu.
Bóka-Retreat er hugmynd sem kom upp í bókaklúbbi Sigrúnar Bjargar Aðalgeirsdóttur, eiganda Skúlagarðs, sem ber heitið Sæluvíma eftir samnefndu verki Lily King. Nokkrar í klúbbnum voru að detta úr lestrarstuði, vegna anna og áreitis. „Þá kom upp þessi hugmynd: að hjálpa okkur og öðrum við að sökkva sér aftur í lestur,” segir Sigrún.
Konur á öllum aldri hafa skráð sig og bókahelgin sömuleiðis samvera og spjall. Ester Hilmarsdóttir, bóndakona úr Aðaldal og höfundur bókarinnar Sjáandi, verður með upplestur og Tinna Arnar, nuddari og jógakennari á Húsavík, ætlar að kenna hópnum að losa um axlir við lestur. Á leslistanum fyrir helgina eru tvær stuttar skáldsögur af ólíkum toga: Mandla eftir Hildi Knútsdóttur og Smámunir sem þessir eftir Claire Keegan
Sigrún Björg og eiginmaður hennar, Egill Bjarnason, fluttu í Kelduhverfi síðastliðið sumar til þess að fylgja eftir rekstri Skúlagarðs. „Okkur langar að nýta þennan rólega vetrartíma til að bjóða upp á spennandi viðburði og erum opin fyrir öllum hugmyndum ef fólki langar að prófa að gera eitthvað hér með okkur,” segir hún. „Helgina 13. – 15. mars kemur Tinna Arnar aftur til okkar með FOR-REST Yoga og heilsuhelgi. Sú helgi er hugsuð til að veita konum tækifæri til að koma saman og næra líkama og sál; núllstilla sig og ná í verkfæri til að taka með út í amstur dagsins. Áhersla verður lögð á Yin Yoga, nuddbolta, hljóðböð og tónheilun sem Tinna stýrir af mikilli fagmennsku og hlýju. Við erum ótrúlega spennt fyrir þessari helgi og erum viss um að þátttakendur upplifi heilunnarmátt náttúrunnar hér í Skúlagarði, líkt og við gerum.” Í samtali vð Húsavík.com segja þau Sigrún og Egill að enn séu laus pláss, og sömuleiðis á bókahelgina 6. – 8. febrúar.
Með vorinu opnar veitingastaðurinn Grös dyr sínar í endurgerðum veitingasal Skúlagarðs sem þau hjónin vona að verði ný og skemmtileg viðbót í flóruna.


