Karlalið Völsungs og Eflingar í blaki vann sögulegan sigur á liði KA-Splæsis í gærkvöldi í 8-liða úrslitum Kjörísbikarkeppni Blaksambands Íslands. Leikurinn fór fram í KA-heimilinu á Akureyri.
Með sigrinum tryggði sameiginlegt lið Völsungs og Eflingar sér sæti í undanúrslitum Kjörísbikarsins í fyrsta skipti í sögu félagsins og jafnframt þátttökurétt í bikarhelginni, sem er stærsti einstaki viðburður sem Blaksamband Íslands stendur fyrir í meistaraflokki. Þar er umgjörð keppninnar með því besta sem gerist og allir leikir sýndir í beinni útsendingu á RÚV.
Undanúrslitin fara fram dagana 12.–14. mars.
Bikarævintýrið heldur áfram hjá Völsungi um helgina, en á laugardaginn leikur kvennalið félagsins útileik gegn Þrótti Reykjavík í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar. Ef allt gengur að óskum gæti Völsungur því átt bæði karla- og kvennalið í bikarhelginni í mars, sem væri einstakur og eftirtektarverður árangur fyrir félagið.

