Sviðsmyndir fyrir Ísland í breyttum heimi

Jæja, prófum að hugsa nokkra leiki fram í sviðsmyndum fyrir Ísland.

1. Umheimurinn tekur sterka afstöðu gegn hótunum Trumps um að taka Grænland og hann bakkar. Sem hingað til hefur ekki gerst.

2. Trump tekur Grænland og skyndilega er Ísland nánast umkringt landi sem er hertekið af Bandaríkjunum. Hljómar fjarstæðukennt, en hann var að taka Venezúela og segist ætla að taka Grænland líka. Við verðum að ræða hvað getur gerst.

3. Ef Trump tekur Grænland og tryggir þannig öryggi sitt á heimskautasvæðum, má ætla að fleiri vilja tryggja öryggi sitt. Rússland tekur því restina af Svalbarða.

4. Hvað gerir Ísland þá? Bíður eftir Rússunum eða Bandaríkjamönnunum? Hringir í Starmer og biður Breta um að koma tilbaka? Gengur í Evrópusambandið? Tekur kostatilboði frá Kína sem langar mjög í svæði sem nær inn í heimskautið (og heimskautaráð)? Ef Trump tekur Grænland er Nató jú orðið að engu og Ísland því í raun varnarlaust.

Og ef þetta eru allt í einu orðnar sviðsmyndir sem eru ekki bara leikfimiæfingar heldur eitthvað sem maður þarf raunverulega að búa sig undir að geti orðið að veruleika, hvað getum við þá gert í dag til þess að standa sem sterkast á móti þessu í nýrri heimsmynd?

Ísland liggur jú eins og sést á kortinu ennþá mjög strategískt með bráðnun íshafsins og nýjum siglingaleiðum, ekkert minna en í seinni heimsstyrjöldinni.

Höfundurinn er fyrrverandi framkvæmdastjóri Visit Greenland