Þingeyjarsveit auglýsir þessa daga laust starf verkefnastjóra framkvæmda og veitna hjá sveitarfélaginu. Um er að ræða 100% starfshlutfall og heyrir starfið undir umhverfis- og framkvæmdasvið sveitarfélagsins.
Þingeyjarsveit á og rekur fjölbreyttar fasteignir og innviði, þar á meðal þrjár grunnskólabyggingar, fjórar leikskólabyggingar, íþróttamiðstöð, sundlaug og fjögur félagsheimili. Þá rekur sveitarfélagið einnig þrjár hitaveitur auk vatns- og fráveitukerfa.
Helstu verkefni verkefnastjóra eru meðal annars stjórnun viðhalds- og nýframkvæmda, gerð verk- og kostnaðaráætlana, verkefnastjórn og eftirlit með hönnun og framkvæmdum, auk umsjónar með veitukerfum og tæknibúnaði. Þá felst starfið í innkaupum á búnaði og gerð viðhaldsáætlana.
Gerðar eru kröfur um verk-, tækni- eða byggingafræðimenntun eða aðra menntun sem nýtist í starfi, ásamt haldgóðri reynslu af framkvæmdum og verkefnastjórnun. Jákvæðni, góð samskiptahæfni, skipulag og sjálfstæð vinnubrögð eru mikilvægir kostir, auk góðrar íslenskukunnáttu og tölvufærni.

