Þórhallur Jónsson, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, hefur ákveðið að gefa kost á sér í efsta sæti á lista flokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Jafnframt hyggst hann kæra til miðstjórnar flokksins þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við val á framboðslista og krefst þess að haldið verði prófkjör. Akureyri.net greindi fyrst frá.
Í haust var samþykkt að raða í fjögur efstu sæti listans án prófkjörs, þar sem gert var ráð fyrir að aðeins einn frambjóðandi sæktist eftir oddvitasætinu. Þórhallur tilkynnti í kjölfarið að hann gæfi kost á sér í 2.–3. sæti listans, en segir forsendur hafa gjörbreyst eftir að Berglind Ósk Guðmundsdóttir, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, ákvað að bjóða sig fram í efsta sætið.
Að sögn Þórhalls mynduðu Berglind og Heimir Örn Árnason, núverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og formaður bæjarráðs, með sér bandalag þar sem þau lýstu yfir gagnkvæmum stuðningi. Heimir studdi Berglindi í 1. sæti og hún Heimi í 2. sæti listans. Þórhallur segir að þetta hafi verið gert án samráðs við fulltrúaráð flokksins né stjórnir sjálfstæðisfélaganna á Akureyri.
Þórhallur Jónsson segir að með þessu hafi orðið trúnaðarbrestur innan Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Hann bendir á að meginforsenda þess að ekki var farið í prófkjör hafi verið sú að aðeins einn frambjóðandi væri í oddvitakjöri, en sú forsenda hafi brostið. Þá segir hann að aðgengi fráfarandi formanns fulltrúaráðs að kjörskrá setji trúverðugleika röðunarfyrirkomulagsins í uppnám.
Með framboði sínu skorar Þórhallur á Sjálfstæðisflokkinn að halda sig við hefðir flokksins, fara í prófkjör og leyfa sjálfstæðisfólki á Akureyri að velja sér oddvita með lýðræðið í fyrirrúmi.

