Eldsneytisverð lækkaði verulega á bensínstöðvum N1, Olís og Orkunnar á Húsavík á miðnætti, samhliða gildistöku nýrra laga um kílómetragjald og niðurfellingu eldsneytis- og vörugjalda. Lækkunin er á bilinu um 26 til 31 prósent og er að mestu sambærileg við þá þróun sem orðið hefur annarsstaðar á landinu.
Hjá N1 á Húsavík lækkaði díselverð úr 313,9 krónum í 233,7 krónur á lítrann, sem jafngildir 25,6% lækkun. Verð á 95 oktana bensíni fór úr 309,9 krónum í 215,7 krónur, eða 30,4% lækkun.
Hjá Orkunni á Húsavík er 95 oktana bensín nú á 212,1 krónu lítrinn og dísel á 233,6 krónur. Athygli vakti að lækkunin hafði þegar verið innleidd þar um klukkan 22 í gærkvöldi, tveimur klukkustundum fyrir áramót, þegar blaðamaður Húsavík.com skráði verðin. Miðað við fyrri verð í kringum 308-314 samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Orkunnar samsvarar þetta um 31% lækkun á bensíni og um 26% á dísel, í takt við það sem sést annars staðar á landinu.
Breytingarnar tengjast upptöku kílómetragjalds sem á að standa undir framtíðarfjármögnun vegakerfisins. Eigendur skrá kílómetrastöðu ökutækja að lágmarki árlega og greiða gjaldið mánaðarlega, með fyrsta gjalddaga 1. febrúar. Fyrir ökutæki undir 3.500 kílóum er gjaldið 6,95 krónur á hvern ekinn kílómetra.

