Þrettándabrennur fóru fram víða á Norðurlandi í gær, meðal annars á Húsavík og Laugum. Þrettándinn markar endi jólahátíðarinnar í íslenskri hefð og er sá dagur þegar síðasti jólasveinninn heldur aftur til fjalla og huldufólk, álfar og aðrar vættir eru sagðar vera á ferðinni.
Á Húsavík var það Tónasmiðjan sem sá um skemmtunina og flutti hún úrval af lögum meðan brennan stóð yfir og myndaðist notaleg stemmning við eldinn. Hin unga söngkona Máney úr 5. bekk Borgarhólsskóla söng einsöng við undirleik Elvars Bragasonar og vakti flutningurinn mikla lukku. Að því loknu var glæsileg flugeldasýning, en aðstæður til brennu og flugeldasýningar voru mun betri nú en um áramótin sjálf, því talsvert hefur snjóað síðustu daga.
Á Laugum í Reykjadal var einnig vel mætt. Kristinn Ingi Pétursson skrifaði um viðburðinn: „Þetta var frábær þrettándabrenna og glæsileg flugeldasýning á Laugum í kvöld. Takk meðlimir HSR fyrir skemmtunina.“
Meðfylgjandi myndir tóku þeir Óli Halldórsson á Húsavík og Kristinn Ingi á Laugum.

