Guðný María Waage hefur náð þeim merkilegum áfanga í sjálfboðastarfi sínu fyrir Félag hundaeigenda á Húsavík, að birta í gær hundaviðtal númer 50 á síðu félagsins. Guðný er formaður félagsins, en starfar jafnframt sem dýraeftirlitsmaður Norðurþings og vörustjóri hjá Pósturinn á Húsavík. Húsavík.com heyrði í Guðnýju við þessi tímamót.
Aðspurð um hvernig hugmyndin að hundaviðtölunum hafi kviknað segir Guðný að upphafið megi rekja til Covid-tímans. „Í Covid þá langaði mig í meiri góðar fréttir og á stjórnarfundi hjá Félagi hundaeigenda, sem ég er formaður í, tóku þau vel í að koma upp smá umræðu og jákvæðum umfjöllunum með reglulegum viðtölum við hundaeigendur. Ég byrjaði á einu viðtali til að skrifa eitthvað jákvætt,“ segir hún. „Það er verðmætt að skrá sögu hundanna í samfélaginu okkar.“
Það sem henni þykir skemmtilegast við viðtölin er fjölbreytnin og sögurnar sem koma upp. „Að heyra allar sögurnar sem hver og einn hefur að geyma. Enginn hundur er eins, jafnvel þótt þeir séu af sömu tegund. Það eru augnablik og stundir í lífi hunds sem gera hann að fjölskyldumeðlim.“
Skrifar af einlægni og áhuga um hundasamfélagið
Spurð hvað hafi komið henni mest á óvart í þessari vinnu segir Guðný að það sé einfaldleikinn sem oft býr að baki sterkustu frásögnunum. „Kannski mest af öllu hefur það komið mér á óvart hversu lítið þarf til að segja stóra sögu. Smá venja, eitt augnablik, einn hundur og allt lífið endurspeglast. Ég fer líka oft í heimsókn í viðtölunum, hitti hundinn, hlusta á eigandann og leyfi þeim alfarið að eiga viðtalið. Þetta er þeirra fjölskylda. Í sambandi hunds og manns er jafnvægi, skilningur og þögn sem talar,“ segir hún og bætir við að verkefnið hafi einnig styrkt hana persónulega. „Ég er líka orðin betri í skriftinni þrátt fyrir lesblindu mína. Ég læt það ekki stoppa mig, ég skrifa af einlægum áhuga,“ segir Guðný.
Og framtíðin? Er stefnan sett á 100 viðtöl? „Já, það er nóg eftir að skrifa. Það eru um 150 hundar skráðir hjá Norðurþingi og nú eru þrír af þessum 50 sem við höfum fjallað um fallnir frá. Það er ómetanlegt að eiga þessar frásagnir, sérstaklega fyrir eigendur þeirra, til að ylja sér við,“ segir Guðný að lokum.
Hundaviðtölin hennar Guðnýjar má lesa á síðu félagsins hér:
www.facebook.com/felaghusavikurhunda

