Foreldrum nemenda í 10. bekk í Borgarhólsskóla var boðið á kynningu á starfsemi Framhaldsskólans á Húsavík á opnum degi sem haldinn var í skólanum í gær. „Við vorum að kynna starfsemi skólans, fara yfir námsframboð, félagslíf og þjónustu skólans,“ segir Arna Ýr Arnarsdóttir, áfanga- og fjármálastjóri FSH.
Alls munu 39 nemendur útskrifast úr Borgarhólsskóla í vor og er árgangurinn sá stærsti sem nú er í grunnskólanum og meðal stærstu útskriftarárganga úr grunnskóla á Húsavík um áratuga skeið.
„Það var virkilega gaman að sjá hversu margir mættu til að kynna sér það námsframboð og þjónustu sem við bjóðum upp á. Þetta er öflugur hópur og við vonumst að sjálfsögðu til að fá sem flest úr þessum stóra árgangi til okkar í FSH að lokinni grunnskólagöngu, enda skiptir okkur miklu máli að hér starfi áfram öflugur framhaldsskóli,“ segir Arna Ýr.
Arna segir jafnframt á að nemendafélag skólans hafi staðið að skemmtilegri kynningu á félagslífi nemenda. „Þar er heldur betur nóg um að vera hjá þeim,“ segir Arna að lokum.

