Vilja gera Húsavík að miðstöð nýsköpunar á landsbyggðunum

Í þessari viku er Húsavík miðpunktur norrænnar tækni nýsköpunar, en fulltrúar frá Fab Lab tæknismiðjum víðs vegar að úr Skandinavíu komu til Húsavíkur í gær til að taka þátt í Fab Lab Bootcamp sem hefst í dag og stendur alla vikuna. „Þetta eru um 30 þátttakendur frá Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Færeyjum og Íslandi,“ segir Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir hjá Þekkingarneti Þingeyinga.

„Húsavík hefur allt til að bera til að vera miðstöð nýsköpunar í landsbyggðunum. Hér hefur í gegnum tíðina verið mikil nýsköpun í atvinnulífi og nú síðustu árin í ferðaþjónustu. Við upplifum mikil tækifæri þessu tengt á Stéttinni. Hér eru sprotar úr öllum áttum sem sameinast á einum stað, með aðstöðu til að hrinda hugmyndum í framkvæmd með hjálp tölvustuddrar hönnunar- og framleiðslutækni í Fab Labinu. Þetta er aðstaða og tækifæri sem við verðum að nýta. Sérstaklega þegar við horfum til þess að framundan er mikil uppbygging í samfélaginu,“ segir Stefán Pétur Sólveigarson, verkefnastjóri Hraðsins og forsvarsmaður Fab Lab á Húsavík.

Hann segir því mjög mikilvægt að við séum samstíga og sköpum vettvang fyrir hugmyndir og dýrmæta reynslu sem býr í fólkinu á staðnum. „Við í Hraðinu/Fab Lab erum alltaf tilbúin að taka á móti fólki og erum í góðu samstarfi við háskólana og stoðkerfi nýsköpunar á landinu til að veita stuðning. Einnig höfum við verið með sérstaka viðburði til að virkja fólk til að koma hugmyndum sínum á framfæri s.s. hugmyndahraðhlaupið KRUBB sem hefur heppnast einstaklega vel. Hér er lykillinn að vera óhræddur við að segja frá hugmyndum sínum því þær eru yfirleitt dýrmæt fræ sem geta orðið að sprota. Við lítum á Hraðið sem jarðveg fyrir þessi fræ,“ segir Stefán.

„Bootcampið er ætlað stjórnendum og starfsfólki Fab Lab smiðja á Norðurlöndum og er markmið þess að miðla þekkingu, efla færni, deila reynslu og stækka tengslanetið. Áhersla er lögð á bestu starfsvenjur í rekstri smiðja, kennslu, samstarfsverkefni og þekkingaryfirfærslu. Þá verður einnig fjallað sérstaklega um menntun, nýja tækni, gervigreind, rafeindatækni, CAD og CAM hönnun og samstarf þvert á greinar,“ segir Lilja.

Stefán segir að þátttakendur fái þarna tækifæri til að kynnast aðstöðu Fab Labsins á Húsavík sem hefur verið byggt upp af krafti undanfarin ár. „Þau fá meðal annars að prófa nýju málmlaservélina frá GPG, nýjasta þrívíddarprentarann frá Prusa og nýjungar í stafrænni textíltækni og margt fleira,“ segir Stefán.

Um er að ræða stóran viðurð og voru fjöldi Fab Lab smiðja sem sóttust eftir að hýsa hann. „Þegar kemur að því að velja staðstetningu viðburðarins keppast Fab Löbin á sérstökum valfundi með því að vera með kynningu fyrir hinar smiðjurnar. Við kynntum, lýstum aðstöðunni og vorum með myndband frá Húsavík, Stéttinni og Fab Labinu og þá var þetta aldrei spurning. Það vildu allir koma til Húsavíkur. Ég held að íbúar geri sér ekki grein fyrir því hvað við höfum mikil tækifæri hér til að laða fólk til staðarins, ekki bara ferðamenn heldur líka nýja íbúa, fyrirtæki og viðburðagesti,“ segir Stefán.

Hvað er framundan á árinu 2026? „Hér verður áfram líf og fjör. Þegar þessu stóra Fab Lab Bootcampi er lokið byrjum við strax að setja inn ný námskeið á heimasíðu Þekkingarnetsins. Í Fab Labinu náum við varla að anna eftirspurn sem er algerlega frábært. Íbúar staðarins hafa verið duglegir að skrá sig á námskeiðin og hér hefur myndast góður hópur af fólki sem er orðinn sjálfbjarga í tækjabúnaði smiðjunnar. Við eigum líka orðið frábæran hóp leiðbeinenda sem hefur menntað sig í að kenna á tæki smiðjunnar svo hér er alltaf mikið um að vera. Svo eru skólarnir duglegir í að nýta aðstöðuna fyrir nemendur. Við ætlum að vera áfram með öfluga smiðju með nýjustu tækjum, oft í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu, með það að markmiði að allir þeir sem vilja læra á stafræna tækni, geti það. Það eru allir velkomnir í smiðjuna okkar og besta leiðin til að nýta hana er að skrá sig á skemmtilegt og fræðandi námskeið eða mæta á opið hús sem er á miðvikudögum og leyfa sér að vera svolítið forvitin,“ segir Stefán að lokum.