Sveitarfélagið Norðurþing og Bakkavík landeldi ehf undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um lóð undir mögulega landeldisstöð á iðnaðarsvæðinu á Bakka, norðan Húsavíkur. Fyrirtækið sér mikil tækifæri í sjálfbærri auðlindanýtingu og nýjum störfum í Norðurþingi og hyggst kanna ítarlega fýsileika þess að reisa og reka laxeldisstöð á svæðinu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá sveitarfélaginu.
Norðurþing telur verkefnið falla vel að umhverfis- og loftslagsstefnu sveitarfélagsins og þeirri hugmyndafræði sem mótuð hefur verið um Grænan iðngarð á Bakka. Þar eru hringrásarhagkerfi, sjálfbær orkunýting og betri nýting auðlindastrauma lykilatriði — og gæti landeldi á Bakka orðið hluti af þeirri heildarmynd sem samfélagið hefur unnið að.
Við undirritun samningsins sagði Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri að sveitarstjórn sæi landeldi á Bakka sem raunhæfan möguleika til framtíðar. „Það er ánægjulegt að undirrita viljayfirlýsingu við trausta og áhugasama aðila með reynslu í uppbyggingu eldisfyrirtækja,“ sagði hún.
Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Bakkavíkur landeldis, tók fram að um þróunarverkefni væri að ræða sem tæki nokkur ár. Fyrirtækið hefji nú greiningu á aðgengi að jarðhita, ferskvatni, raforku, jarðsjó og hafnaraðstöðu, ásamt mati á starfsleyfisskilyrðum og samgöngum.
Leiði greiningin í ljós að verkefnið sé fýsilegt, stefna aðilar að því að ganga til samninga um lóðina.
Ljósmynd: Norðurþing

