Á meðan átök og ófriður einkenna alþjóðasamfélagið heldur Ísland áfram að tróna á toppi lista yfir friðsælustu ríki heims. Samkvæmt Global Peace Index 2025, sem unnin er af Institute for Economics & Peace, er Ísland í fyrsta sæti yfir friðsælustu lönd heims í átjánda skiptið í röð, eða allt frá árinu 2008, að því fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Í skýrslunni kemur fram að árið 2025 hafi verið sérstaklega átakaþrungið á heimsvísu. Aldrei frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafa jafn mörg átök verið skráð og nú, en þrjú ný stríð brutust út á árinu. Mörg ríki hafa brugðist við með aukinni hervæðingu og hertum öryggisráðstöfunum.
Þrátt fyrir þessa þróun halda ákveðin lönd áfram að leggja áherslu á frið, stöðugleika og samfélagslegt öryggi. Global Peace Index byggir á 23 mælikvörðum, þar á meðal innri og ytri átökum, hervæðingu, glæpatíðni, hryðjuverkum og almennu öryggi íbúa. „Löndin sem eru efst á listanum hafa verið þar með miklum stöðugleika um langt árabil, sem sýnir að friðsæl stefna skilar árangri til lengri tíma,“ segir í frétt BBC.
10 friðsælustu lönd heims árið 2025:
- Ísland
- Írland
- Nýja-Sjáland
- Austurríki
- Sviss
- Singapúr
- Portúgal
- Danmörk
- Slóvenía
- Finnland

