Ýmis ævintýri geta gerst í aðdraganda jóla og eitt slíkt átti sér stað á Húsavík nú á dögunum, þegar starfsfólk Póstsins fékk óvæntan liðsauka úr Mývatnssveit, en þar voru komnir bræðurnir Hurðaskellir, Skyrgámur og Þvörusleikir Grýlu- og Leppalúðasynir, en þeir bræður eru búsettir í Dimmuborgum og hafa vakið mikla athygli um langt árabil.
„Þeir bræður vildu endilega hjálpa til við að flokka pakka og vonuðu sjálfsagt að í einhverjum þeirra leyndist kjötbiti eða skyrskvetta sem þeir gætu laumast í. Vonbrigði þeirra voru töluverð þegar við sögðum þeim að óheimilt væri að flytja ferska matvöru með Póstinum en þeir tóku gleði sína á ný þegar Guðný María, fulltrúi rekstrarstjóra á Húsavík, laumaði að þeim smávegis góðgæti af kaffistofunni áður en þeir þrömmuðu af stað að hitta káta krakka í bænum. Þeir reyndu að fá póstbílinn lánaðan en þar sem enginn þeirra bræðra er með bílpróf var það ekki í boði,“ segir á vefsíðu Póstsins þar sem heimsókninni eru gerð skil.


