„Mikilvægt að taka eftir og benda á það jákvæða í samfélagi okkar“

Í vel rúman áratug hefur Ingibjörg Sigurjónsdóttir á Laxamýri byrjað föstudaga á því að beina kastljósinu að því sem vel er gert í samfélaginu. Með svokölluðu föstudagshrósi á Facebook hefur hún vakið athygli á fólki, verkefnum og atvikum sem gefa tilefni til gleði og þakklætis. Það sem hófst sem einföld hugmynd í erfiðum aðstæðum hefur með árunum orðið að fastmótuðum vana, bæði fyrir Ingibjörgu sjálfa og þá fjölmörgu sem fylgjast með færslunum hennar. Húsavík.com ræddi við Ingibjörgu um upphafið, hugarfarið og hvers vegna hún heldur þessu áfram, ár eftir ár.

Hvernig stóð á því að þú byrjaðir með föstudagshrósið á Facebook? „Ég byrjaði á þessu þegar það voru alls kyns áföll búin að dynja á í samfélaginu og mér þótti mörgum líða illa. Neikvæðni og svartsýni var viðloðandi á samfélagsmiðlum og mig langaði að gera eitthvað til að vega upp á móti þessu. Þetta var mín leið. Árin eru að verða 12 síðan ég byrjaði á þessu, fyrsta hrósið kom 24. janúar 2014.“

Er það ákvörðun að vera með jákvætt hugarfar? „Það þarf stundum að vera það, já. Þegar allt gengur að óskum er auðvelt að vera jákvæður. Stundum þarf maður að hafa fyrir því að beina sjónum sínum að því jákvæða.“

Núna í desember hefur Ingibjörg einnig verið með þakklætisdagatal á Facebook síðu sinni. Okkur langaði að vita hvort hún hefði gert það áður: „Já, ég hef tekið svona tarnir áður. Ekki jafn lengi og föstudagshrósið, en við og við. Þetta er þriðja árið í röð sem ég geri þetta í desember. Það er gaman að sjá gamlar færslur hjá mér í þakklætisdagatali. Þetta er ansi oft endurtekið efni, svo það er nokkuð ljóst að ég veit hvað ber að þakka fyrir í mínu lífi.“

Finnurðu mun á föstudögum þegar þú byrjar daginn á að leita að því jákvæða?
„Ég finn aðallega fyrir því að finnast gott að fara inn í helgina á þessum nótum. Mér þykir sérstaklega gaman þegar ég veit að hrósið hefur hitt þann sem fær það í hjartastað. Til þess er leikurinn gerður. Að gleðja,“ segir Ingibjörg að lokum.