Sædís Heba skautakona ársins 2025

Sædís Heba Guðmundsdóttir frá Skautafélagi Akureyrar hefur verið útnefnd skautakona ársins 2025 af stjórn Skautasambands Íslands og Afreksnefnd ÍSS. Sædís Heba er 16 ára og æfir með Skautafélagi Akureyrar undir leiðsögn Jönu Omelinová.

Sædís hóf árið á keppni á European Youth Olympic Festival (EYOF) þar sem hún endaði í 23.sæti með 102.91 stig. Síðar á tímabilinu keppti hún á Sonja Heine Trophy og endaði með 109.38 heildarstig og 13. sætið. Sædís lauk síðan keppnistímabilinu 2024-2025 með trompi á Vormóti ÍSS. Þar hlut hún 44,55 stig í stuttu prógrammi, 74,37 stig fyrir frjálst prógram og 118,92 heildarstig. Þetta var nýtt persónulegt stigamet fyrir Sædísi.

Sædís var fulltrúi Íslands á báðum Junior Grand Prix mótaröðum á tímabilinu 2025-2026. Fyrsta fór fram í Riga þar sem hún hlaut 99.32 stig og hið síðara í Gdansk þar sem hún hlaut 104,69 stig. Bætti Sædís árangur sinn á milli móta og sýndi stöðuga framfarir í sterkri alþjóðlegri keppni.

Sædís keppti næst á Northern Lights Trophy í Egilshöll og endaði, naumlega, í fjórða sæti með 103,53 heildarstig. Með þessum árangri vann hún sér inn 73 stig sem skila henni inn á heimslista fyrir Junior Women í 176 sætið (ISU World Standings – 2025/26 Jr Women). Hún er eini íslenski kvenkyns skautarinn á listanum í dag.

Sædís Heba er fremsti íslenski skautarinn í Junior flokki og hefur sýnt sig og sannað með frammistöðu sinni bæði innan- og utanlands. Hún er metnaðarfull, einbeitt og sýnir mikla þrautseigju og verður gaman að fylgjast með henni á næstu árum.

Skautasambandið sendir Sædísi Hebu innilegar hamingjuóskir á vefsíðu sinni.