Sveitarstjórnarkosningar: Sjálfstæðisflokkur velur í uppstillingarnefnd

Sjálfstæðisfólk í Norðurþingi fundaði í gær um val á lista fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Að sögn Helenu Eydísar Ingólfsdóttur sveitarstjórnarfulltrúa var á fundinum ákveðið að fara í uppstillingu og valið í uppstillingarnefnd.

Í uppstillingarnefnd sitja þau Olga Gísladóttir, Guðrún Þóra Hallgrímssdóttir, Stefán Jón Sigurgeirsson, Sigurgeir Höskuldsson, Anna Rósa Magnúsdótti og til vara þeir Hilmar Kári Þráinsson og Björn Gunnar Jónsson. Nefndin mun funda á næstu dögum og skipta með sér verkum.

„Áhugasömum er velkomið að setja sig í samband við nefndina hafi þeir áhuga á að taka sæti á lista Sjálfstæðisfélaganna í Norðurþingi,“ segir Helena Eydís.

Í sveitarstjórnarkosningunum árið 2022 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 23.85% atkvæða og tvo fulltrúa kjörna í sveitarstjórn Norðurþings, þær Hafrúnu Olgeirsdóttur og Helenu Eydísi, en Hafrún hefur verið í barneignarleyfi undanfarið ár og hefur Kristinn Jóhann Lund setið í sveitarstjórn í hennar stað.

Sveitarstjórnarkosningar munu fara fram 16. maí næstkomandi.