Tónasmiðjan: „Skein í gegn sú mikla reynsla sem er komin í hópinn“

Jólin þín og mín, jólatónlistarveisla Tónasmiðjunnar fór fram í Íþróttahöllinni á Húsavík í gær. Þar stigu á svið stór hljómsveit, kór, bakraddir, dansarar og fjölbreyttir einsöngvarar á öllum aldri. Meðal heiðursgesta voru Elísabet Ormslev, Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir og Ívar Helgason, auk Sálubótar og dansara frá STEPS á Akureyri. Allur ágóði tónleikanna rann til Björgunarsveitarinnar Garðars.

Húsavík.com náði tali af tónleikahaldaranum eftir tónleikana. „Tónleikarnir gengu frábærlega og það skein í gegn sú mikla reynsla sem er komin í hópinn,“ sagði Elvar Bragason stofnandi Tónasmiðjunnar kampakátur eftir tónleikana. Allt í allt komu 60 listamenn fram á tónleikunum en þetta er í 8. sinn sem Tónasmiðjan stendur fyrir glæsilegum jólatónleikum undir þessu heiti Jólin þín og mín.

Meðfylgjandi eru myndir eftir ljósmyndarann Hilmar Friðjónsson sem hefur fest marga flotta viðburði Tónasmiðjunnar á filmu gegnum árin.