Sópransöngkonan Heiðdís Hanna Sigurðardóttir flutti til Húsavíkur fyrir tæpum þremur árum, en á að baki langan feril í tónlist. Hún verður með notalega jólatónleika í kirkjunni á fimmtudagskvöld ásamt Attila Szebik á píanó og Önnu Gunnarsdóttur á þverflautu.
Heiðdís steig sín fyrstu skref á óperusviðinu í hlutverki Zerlinu í Don Giovanni eftir Mozart hjá Íslensku óperunni. Heiðdís lagði stund á klassískan söng við Tónlistarháskólann í Freiburg og við Listaháskóla Íslands og var einn af sigurvegurum Ungra einleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2016. En hvað kom til að hún ákvað að setja upp jólatónleika í Húsavíkurkirkju?
„Þetta byrjaði eiginlega þannig að ég var búin að vera að velta fyrir mér hvort að ég ætti að halda jólatónleika eða ekki. Svo var ég einhvern tímann í haust að keyra frá Reykjavík til Húsavíkur og mundi eftir laginu Jól eftir Jórunni Viðar sem er með svo rosalega fallegum þverflautu parti og datt í hug að spyrja Önnu Gunnarsdóttur hvort hún væri til í að spila með mér. Hún var til og þannig byrjaði boltinn að rúlla. Smám saman bætti ég svo við lögum sem mér finnst falleg og hátíðleg. Prógrammið er svolítil blanda af lögum í klassískum stíl og svo meiri jazz eða dægurlaga stíl en flest öll lögin verða sungin á íslensku og markmiðið er að skapa rólega og hátíðlega stemningu. Mér finnst líka gaman að velja lög sem að hafa innihaldsríka og fallega texta,“ segir Heiðdís.
Hvaða jólalög sem verða á tónleikunum standa næst hjarta þínu? „Það er smá erfitt að gera upp á milli en það eru sérstaklega þrjú lög sem að koma upp í hugann. Ave María eftir Sigvalda Kaldalóns á alltaf sérstakan stað í hjarta mér. Þetta er eitt af þessum lögum sem að eru búin að fylgja mér lengi og ég hef sungið við ólík tilefni. Það eru einhverjir töfrar í þessu lagi og ég hlakka til að syngja það í fyrsta skipti í Húsavíkurkirkju. Næst langar mig að nefna lagið Á Jólanótt eftir Jón Ásgeirsson við einstaklega fallegan texta eftir Gunnar Dal. Ég held að það séu ekki margir sem að þekkja þetta lag, en lagið var valið Jólalag Ríkisútvarpsins árið 1987. Ég kynntist þessu lagi í gegnum fyrsta söngkennarann minn, hana Guðrúnu Jóhönnu Jónsdóttur, dóttur Jóns Ásgeirssonar og ég er mjög þakklát fyrir það. Svo er það lagið Laudate dominum eftir Mozart. Ég söng það síðast opinberlega á aðfangadagskvöld fyrir fullri Háteigskirkju í Reykjavík, kasólétt af syni mínum. Eftir á að hyggja, þá skil ég ekki alveg hvernig ég fór að því, hann fæddist svo nákvæmlega 10 dögum seinna. Þetta lag er virkilega fallegt og hátíðlegt og oft sungið um jólin. “
En hvað er það sem gerir svo sérstakt að koma fram í Húsavíkurkirkju? „Mér þykir mjög vænt um Húsavíkurkirkju og finnst gott að syngja í henni. Hún er svo hlýleg og tekur vel á móti manni. Á björtum degi er líka útsýnið úr henni dásamlegt. Hún er vissulega ekki með besta hljómburðinn fyrir órafmagnaðan söng en hún bætir það upp með hlýleika og að manni líður vel í henni, sem skiptir miklu máli þegar að maður er að syngja,“ segir Heiðdís að lokum.
Tónleikarnir fara fram fimmtudaginn 18. desember kl. 20.00 í Húsavíkurkirkju. Miðaverð er 3.500 kr.

