Bresk fjölskylda fyrsta ferðafólkið til Húsavíkur á nýju ári

Fyrsta ferðafólkið sem kom til Húsavík á nýju ári var bresk fjölskylda frá Derby, sem lenti á Íslandi með easyJet í beinu flugi til Akureyrar skömmu fyrir áramót. Fjölskyldan dvaldi á Akureyri í gærkvöldi og naut þar flugeldasýningar á gamlárskvöld og lagði svo snemma í morgun upp í bílferð til Húsavíkur.

Richard, Lorna og Alo sögðu í samtali við Húsavík.com að þau hefðu aldrei upplifað jafn mikinn kraft í flugeldasýningu miðað við stærð bæjar. „Hljóðið var ótrúlegt, við höfum aldrei verið á stað þar sem þetta er jafn hávært og dramatískt,“ sagði Richard um áramótin á Akureyri. Að þeirra sögn kviknaði hugmyndin um Húsavík einfaldlega við að vakna á nýársdegi og ákveða að halda áfram að kanna Norðurland.

Fjölskyldan lýsti ferðinni til Húsavíkur í snjókomu morgunsins sem einstakri upplifun. Þau sögðust hafa notið náttúrunnar á leiðinni og tekið eftir hlýju og vinalegu viðmóti fólksins sem þau hafa hitt hér á Húsavík í morgun. „Húsavík og allt sem við höfum séð af Norðurlandi er alveg frábært, fólk er opið, hlýtt og tekur manni vel,“ sagði Lorna.

Að koma til Húsavíkur var sérstakt augnablik, að sögn fjölskyldunnar, þótt þau geri ekki ráð fyrir að sjá hvalaskoðunarbáta á siglingu á nýársdegi. „Þetta er líklega rólegur dagur hér,“ sagði Richard brosandi, „en það gerir stemninguna bara enn meira heillandi.“

Með komu fjölskyldunnar hófst ferðamannaárið 2026 á Húsavík.