Orkuveita Húsavíkur vinnur nú að tilraunaverkefni sem miðar að bættri meðhöndlun frárennslis frá sláturhúsi Kjarnafæðis Norðlenska á Húsavík. Verkefnið er hluti af LIFE Icewater verkefninu sem er stutt af Evrópusambandinu og er unnið í samstarfi við EIM og fleiri aðila á svæðinu.
„Verkefnið er hluti af LIFE Icewater sem er stýrt af Umhverfis- og Orkustofnun og hefur það að markmiði að sýna í verki hvernig bæta megi meðhöndlun fráveituvatns frá matvælavinnslu og draga úr álagi á fráveitukerfi samfélagsins og umhverfið,“ segir Benedikt Þór Jakobsson, rekstrarstjóri Orkuveita Húsavíkur.
LIFE Icewater er ætlað að auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi, og tryggja samhæfða stjórnsýslu í vatnamálum til að bæta vatnsgæði, meðal annars með úrbótum á fráveitu og hreinsun fráveituvatns.
Benedikt segir markmiðin víðtækari en hefðbundna hreinsun. „Markmið verkefnisins er þó ekki einungis að bæta hreinsun fráveituvatns, heldur einnig að fanga verðmæt efni sem hingað til hafa farið til spillis með fráveitunni og oft endað út í sjó.“
Í verkefninu verður formeðhöndlun sett upp við sláturhús Kjarnafæði Norðlenska, þar sem lífræn efni verða skilin frá. „Með hreinsivirkinu verður lífrænt efni, svo sem fita og prótein, skilin frá vatninu og tekin til frekari greiningar og nýtingar,“ segir Benedikt og bætir við: „Með þessu erum við að vonast til að geta sýnt fram á að það geti verið ábati fyrir fyrirtæki sem skila öllu jafnan af sér skólpi beint út í fráveitukerfi sveitafélaga.“
Að hans sögn getur slíkt haft áhrif á framtíðarfjárfestingar sveitarfélaga. „Ef vel tekst til þá gæti svona aðgerðir hjá fyrirtækjum leitt til þess að fjárfestingar í hreinsibúnaði sveitafélaga verði mun minni en ella,“ segir Benedikt að lokum.
Ljósmynd: Örlygur Hnefill

