Jákvæðar fréttir berast frá Blakdeild Völsungs í upphafi árs en þær Kristey Marín Hallsdóttir og Heiðdís Edda Lúðvíksdóttir hafa skrifað undir samninga við félagið og munu klára yfirstandandi tímabil með liðinu.
Forráðamenn deildarinnar segjast afar spenntir fyrir komu þeirra og telja að báðar muni styrkja liðið verulega í þeirri baráttu sem framundan er, bæði í deildarkeppni og bikar. Kristey Marín kemur á láni frá KA út tímabilið, en Heiðdís Edda snýr aftur á völlinn eftir stutta pásu og dregur nú skóna aftur fram.
Á sama tíma kveður Blakdeild Völsungs tvo leikmenn, en Margrét Embla og Claire Isaksen halda aftur á sínar heimaslóðir. Í tilkynningu segir að deildin þakki þeim kærlega fyrir ánægjulega dvöl og framlag þeirra til liðsins á meðan á veru þeirra hjá Völsungi stóð.
Blakdeild Völsungs horfir bjartsýn fram á veginn með þessar breytingar og hlakkar til spennandi verkefna á seinni hluta tímabilsins.


