Norðurþing og Völsungur undirrita nýjan þriggja ára samstarfssamning

Norðurþing og Íþróttafélagið Völsungur hafa undirritað nýjan samstarfssamning til næstu þriggja ára sem tryggir áframhaldandi stuðning við öflugt íþróttastarf í sveitarfélaginu.

Samningurinn er liður í áframhaldandi og markvissu samstarfi Norðurþings og Völsungs, þar sem lögð er rík áhersla á að efla íþrótta- og æskulýðsstarf, stuðla að heilbrigðum lífsstíl og tryggja börnum og ungmennum í sveitarfélaginu aðgang að skipulögðu og faglegu íþróttastarfi. Íþróttafélagið Völsungur fagnar 100 ára afmæli sínu á næsta ári.

Með samningnum skuldbindur Norðurþing sig til að veita Völsungi fjárhagslegan stuðning sem gerir félaginu kleift að halda úti fjölbreyttri starfsemi, bæta aðstöðu og styðja við þjálfara og sjálfboðaliða. Jafnframt er tryggt áframhaldandi aðgengi Völsungs að íþróttamannvirkjum Norðurþings til æfinga og keppni.

Aðilar samningsins leggja mikla áherslu á forvarnar- og lýðheilsuhlutverk íþrótta og mikilvægi þess að skapa jákvætt, öruggt og uppbyggilegt umhverfi fyrir iðkendur á öllum aldri. Þriggja ára gildistími samningsins veitir Völsungi aukið öryggi til langtímaáætlana og áframhaldandi uppbyggingar starfsins.

„Þessi samningur er mikilvægur þáttur í stefnu Norðurþings um að efla lýðheilsu, félagslega þátttöku og velferð íbúa,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings. „Völsungur gegnir lykilhlutverki í samfélaginu og með þessum þriggja ára samningi erum við að tryggja stöðugleika og festu í öflugu íþróttastarfi sem skiptir miklu máli fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur í sveitarfélaginu.“

Jónas Halldór Friðriksson, framkvæmdastjóri Völsungs, segir undirritun samningsins mikið gleðiefni fyrir félagið. „Það er mikil ánægja með að samningurinn við Norðurþing sé til þriggja ára. Það auðveldar starfsemina til framtíðar að hafa langtímasamning að baki og veitir mikilvægt svigrúm til skipulagningar og uppbyggingar. Völsungur er öflugt félag sem litar bæjarfélagið á Húsavík alla daga ársins,“ segir Jónas.