Snjóléttur vetur hefur sett strik í reikninginn á Skíðasvæðinu í Reyðarárhnjúk og er enn ekki nægur snjór kominn til að opna skíðalyftuna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Norðurþing, þar sem greint er frá stöðu mála nú þegar janúar er langt kominn.
Þrátt fyrir að lyftan verði ekki opnuð að svo stöddu hefur verið troðið gönguskíðaspor á svæðinu. Aðstæður eru þó sagðar tæpar og verða uppfærðar daglega á Facebook-síðu Skíðasvæðis Norðurþings.
Verulegar endurbætur á haustmánuðum
Á haustmánuðum var ráðist í ýmsar framkvæmdir til að bæta aðstöðu fyrir gesti og iðkendur vetraríþrótta. Gönguskíðabrautin var lengd um 500 metra og er nú um 1,7 km að lengd. Þá var lýsing brautarinnar bætt með uppsetningu nýrra ljósamastra, sem eykur bæði notagildi og öryggi, sérstaklega á dimmustu tímum dagsins.
Jafnframt var unnið að því að auðvelda troðslu og snjósöfnun á skíðasvæðinu sjálfu, auk þess sem lýsing við bílastæði var bætt til að tryggja betra aðgengi og aukið öryggi gesta.
Ljósmynd: Magnús Máni Sigurgeirsson

