Forsaga máls
Í janúar 1998 samþykkti bæjarstjórn Húsavíkur deiliskipulag á svæðinu sem nefnt var „Húsavík, Hafnarsvæði – miðhluti“. Í því skipulagi var gert ráð fyrir að Helguskúr á lóðinni Hafnastétt 15 byggður 1958 viki. Á árunum 1997 til 2017 var miðhafnarskipulagið ítrekað til umfjöllunar, m.a. með formlegum skipulagsferlum. Nýtt deiliskipulag fyrir miðhafnasvæði Húsavíkur var svo samþykkt í sveitarstjórn í apríl 2017 og er það skipulag í gildi. Þar eru byggingarreitir endurskoðaðir miðað við lóðarmörk og þar að auki skilgreindir nánar/víðar en í fyrra skipulagi. Í greinagerð með skipulaginu segir að á lóðunum Hafnarstétt 1, 15 (Helguskúr) og 33 séu hús/mannvirki sem munu víkja í náinni framtíð. Í báðum deiliskipulagsferlunum sem gert er grein fyrir hér að framan gerði eigandi Helguskúrs ekki athugasemdir við skipulagsbreytingarnar.
Í byrjun nóvember 2016 auglýsti Norðurþing eignina Hafnarstétt 13 á Húsavík til sölu sem einstakt uppbyggingatækifæri á Húsavík. Í lok nóvember það ár tók sveitarstjórn tilboði í Hafnarstétt 13 „Flókahús“ og samþykkti kaupsamning í apríl 2017 ásamt kvöðum vegna byggingaráforma kaupanda hússins. Sama sveitarstjórn gaf svo út stöðuleyfi fyrir Hafnarstétt 15 „Helguskúr“ til 5 ára í desember 2017 og í framhaldinu var Flókahúsinu afsalað ásamt lóðarréttindum í júní 2018 til kaupanda. Með framangreindri sölu og samþykktum var ljóst að Helguskúr gæti ekki staðið áfram á þeim stað sem hann stendur nú.
Stöðuleyfið til 5 ára rann svo út í árslok 2023. Á þeim tíma gerði eigandi Hafnarstéttar 13, Flókahúss, kröfu á Norðurþing um að Helguskúr færi af lóðinni þar sem stöðuleyfið væri runnið út enda hann búinn að framkvæma á sinni eign með það fyrir augum að Helguskúr viki. Skipulags- og framkvæmdaráð fjallaði um málið 19. september 2023 og segir í inngangi að í gildandi deiliskipulagi miðhafnarsvæðis Húsavíkur er gert ráð fyrir að Helguskúr víki og hefur svo verið allt frá því að fyrsta deiliskipulag svæðisins var samþykkt árið 1997. Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs mat það svo að ekki væru forsendur til að veita frekara leyfi fyrir stöðu Helguskúrs á lóðinni að Hafnarstétt 15. Núverandi staðsetning hússins samræmist ekki gildandi deiliskipulagi. Ennfremur hafa framkvæmdir á aðliggjandi lóð miðað við að húsið víki til samræmis við ákvæði deiliskipulags. Ráðið fór því fram á að húsið yrði fjarlægt af Hafnarstétt fyrir 1. nóvember 2024.
Í framhaldi af þessari bókun var sveitarfélagið í sambandi við lögfræðing sem kom fram í umboði eiganda Helguskúrs og fór með hans mál. Þessi samskipti stóðu mest allt árið 2024 og lauk með samkomulagi um kaup Norðurþings á eigninni í desember 2024, staðfest í byggðarráði. Fjárfesting Norðurþings vegna kaupa á Hafnarstétt 15 var bókfærð að upphæð 22.400.000 kr. á árinu 2024 með áföllnum kostnaði þar af var kaupverð eignarinnar 20.467.400 kr. Áfallinn kostnaður er lögfræðikostnaður seljanda.
Staða máls nú
Nú í desember sl. var undirritað og þinglýst afsal Helguskúrs til Norðurþings og sveitarfélaginu afhent lyklavöld. Fjölskylda fyrri eiganda hefur fjarlægt úr skúrnum það sem hún vill og getur varðveitt. Norðurþing er í samskiptum við Menningarmiðstöð Þingeyinga um að skoða í skúrinn í byrjun þessa árs og taka til handagagns hluti sem hafa varðveislugildi. Verður þá horft til muna sem eru beintengdir útgerðinni á Húsavík og segja þá einstaka, staðbundna sögu úr héraði s.s. uppfundnir eða útbúnir á svæðinu.
Að því loknu verður skúrinn rifinn. Búið er að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir niðurrifi sem stefnt er að á fyrstu vikum ársins 2026. Norðurþing mun kosta niðurrif skúrsins sem eigandi.
Að lokum
Það er ljóst að margir bera hlýjar taugar til Helguskúrs. Skúrinn geymir langa sögu fyrri eiganda og margir hafa notið góðvildar fjölskyldunnar og góðgjörða kringum Mærudaga. Ég vona að ofangreind samantekt varpi ljósi á stöðuna og ómöguleika þess að framfylgja ekki ákvörðunum fyrri sveitarstjórnar frá 2016 og 2017 og ákvæðum gildandi deiliskipulags miðhafnarsvæðisins.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings

