Sveitarstjórn bókar um hálfrar aldar afmæli skjálftans á fundi á Kópaskeri

Á fundi sveitarstjórnar Norðurþings í dag var samþykkt samhljóða bókun í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá Kópaskersskjálftanum árið 1976. Í bókuninni er fjallað um sögulegt vægi skjálftans, áhrif hans á samfélagið og mikilvægi samstöðu, seiglu og minningar um atburðinn fyrir komandi kynslóðir.

Bókunin fylgir hér á eftir í heild:

Um þessar mundir eru liðin 50 ár frá Kópaskersskjálftanum eða þann 13. janúar 1976, einum öflugasta jarðskjálfta sem mælst hefur hér á landi. Skjálftinn átti upptök sín úti í Öxarfirði og olli miklu tjóni á mannvirkjum og innviðum samfélagsins, þó manntjón yrði blessunarlega ekki.

Atburðurinn markaði tímamót í skilningi Íslendinga á jarðskjálftahættu og hafði víðtæk áhrif á þróun byggingarreglugerða og öryggismála. En umfram allt var þetta samfélagslegt áfall sem reyndi á fólk við erfiðar aðstæður, óvissu og náttúruöfl af miklum krafti.

Við minnumst þess í dag hvernig samfélagið stóð saman í kjölfar skjálftans, í kulda, óveðri og eftirskjálftum og hvernig samstaða, seigla og samhugur urðu lykillinn að endurreisn Kópaskers. Reynslan lifir áfram í sameiginlegri sögu staðarins og minnir okkur á bæði brothætti byggðarinnar og styrk samfélagsins. Saga skjálftans er varðveitt á Byggðasafninu á Snartastöðum, sem gegnir mikilvægu hlutverki í að miðla þessari reynslu til komandi kynslóða.