Þorrablót Húsvíkinga fer fram nú á laugardag og er undirbúningur í fullum gangi. Húsavík.com ræddi við Helgu Dóru Helgadóttur, formann Þorrablótsnefndar, en hún hafði staðið í ströngu ásamt nefndinni við að afhenda miðapantanir seinni partinn í dag.
„Aðsókn að blótinu í ár er mjög góð, við erum búnar að selja tæpa 400 miða,“ segir Helga Dóra. „Við erum að bíða eftir síðasta núna, það er bara einn sem á eftir að sækja miðana sína og þá er þetta komið,“ bætir hún við.
Formaðurinn lofar mikilli stemningu á blótinu. „Það koma allir með trogið sitt, minni karla og kvenna verða á sínum stað, stutt gamanmyndbönd frá nefndinni, fjöldasöngur og almenn skemmtileg heit,“ segir hún.
Tónlistarfólkið Magni og Erna Hrönn verða veislustjórar og munu skemmta gestum fram eftir kvöldi.

