„Við erum afar stolt af Grenjaðarstað og Sauðaneshúsi í nýrri þáttaröð RÚV“

Menningarmiðstöð Þingeyinga tekur þátt í framleiðslu RÚV á nýrri sjónvarpsþáttaröð sem fjallar um valdar byggingar úr Húsasafni Þjóðminjasafnsins. Það er hinn ástsæli dagskrárgerðarmaður Egill Helgason sem stýrir þáttunum og annast framleiðslu ásamt Jón Víði Haukssyni kvikmyndatökumanni og eru þættirnir unnir af RÚV í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands

Egill Helgason segir í samtali við Húsavík.com að markmið þáttanna sé að skoða húsin frá fjölbreyttum sjónarhornum og skrá sögu þeirra. „Margar af þessum merku byggingum eru norðaustanlands, hugsanlega varðveitast þær betur í veðráttunni þar en syðra. Í Þingeyjarsýslum skoðum við stórhýsið Grenjaðarstað, þennan merkilega stóra og glæsilegea torfbæ, og köllum til liðs við okkur sérfræðinga og heimafólk úr sveitinni. Þvínæst á yfirreið okkar fórum við alla leið út á Langanes, í steinbæinn á Sauðanesi. Hann er auðvitað allt annarar gerðar, úr hlöðnum steini og stendur út við ysta haf. Báðir þessir staðir eiga sameiginlegt að þar er blómleg menningarstarfsemi,“ segir Egill.

Árni Pétur Hilmarsson, safnstjóri og forstöðumaður Menningarmiðstöð Þingeyinga, segir miðstöðina afar stolta af þátttökunni. „Þetta er úrtak úr húsakosti Þjóðminjasafnsins og aðeins lítill hluti húsanna kemst að. Við erum því mjög ánægð að bæði Grenjaðarstaður og Sauðanes, sem við sjáum um, verði tekin fyrir í þáttunum.“

Árni segir einnig að Menningarmiðstöðin hafi komið að því að finna áhugaverða viðmælendur. Meðal þeirra sem koma fram í þáttunum eru Sigurlaug Dagsdóttir frá Haga í Aðaldal og Indriði Ketilsson frá Ytra-Fjalli, sem þekktur er fyrir fróðlegan og skemmtilegan frásagnastíl.

Þættirnir munu varpa ljósi á einstakan menningararf í Þingeyjarsýslum og um land allt, sem og hlutverk þessara bygginga í fortíð og nútíð, en áætlað er að þeir verði á dagskrá RÚV næsta haust.