Sjö fulltrúar í sveitarstjórn vilja vindorkuverkefni á Hólaheiði fært úr biðflokki

Rætt var um vindorkuverkefni á Hólaheiði, svokallaðs Hnotasteins, á fundi sveitarstjórnar Noðurþings sem fór fram á Kópaskeri í dag. Verkefnið er sem stendur í biðflokki í rammaáætlun stjórnvalda.

Virkjunarkosturinn er staðsettur á jörðum Katastaða, Presthóla og Efri-Hóla. Gert er ráð fyrir allt að 34 vindmyllum með heildarafl allt að 190 MW. Verkefnið dregur nafn sitt af örnefninu Hnotasteini, sem er að finna á svæðinu.

Tillaga um færslu úr biðflokki

Sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar, Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Ssamfylkingar lögðu fram tillögu um að óska eftir því við verkefnastjórn rammaáætlunar að vindorkukosturinn á Hólaheiði verði endurmetinn og færður úr biðflokki í nýtingarflokk.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að vindorkukosturinn hafi verið til skoðunar um nokkurt skeið og að umhverfismat og rannsóknir standi yfir. Vísað er til skýrslu starfshóps forsætisráðuneytis um atvinnumál á Húsavík og nágrenni þar sem gert er ráð fyrir að verkefnið geti skilað allt að 190 MW af raforku.

Þá er lögð áhersla á að verkefnið skipti miklu máli fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku á Norðausturlandi, meðal annars með spennuhækkun Kópaskerslínu 1 úr 66 kV í 132 kV. Slík hækkun myndi gera kleift að mata allt að 150 MW frá Hnotasteini inn á línuna, auk þess sem mögulegt væri að flytja allt að 70 MW raforku austur til Þórshafnar og Vopnafjarðar.

Að mati tillöguflytjenda gæti verkefnið haft veruleg áhrif á byggðaþróun, raforkuöryggi og samkeppnishæfni Norðausturlands, og væri jafnframt mikilvæg viðskiptaleg forsenda Landsnets við mat á arðsemi nýrrar flutningslínu frá Kópaskeri til Vopnafjarðar.

Samþykkt með sjö atkvæðum

Tillagan var samþykkt með atkvæðum Áka Haukssonar, Benónýs Vals Jakobssonar, Eiðs Pétursonar, Helenu Eydísar Ingólfsdóttur, Hjálmars Boga Hafliðasonar, Kristins Jóhanns Lund og Soffíu Gísladóttur. Til máls í umræðunum tóku þau Hjálmar Bogi Hafliðason og Aldey Unnar Traustadóttir.

Mótmæli fulltrúa V-lista

Aldey Unnar Traustadóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir, fulltrúar V-lista, greiddu atkvæði gegn tillögunni og lögðu fram ítarlega bókun þar sem þær mótmæla því að óskað verði eftir færslu virkjunarkostsins úr biðflokki í nýtingarflokk.

Í bókuninni er lögð áhersla á að rammaáætlun sé eitt mikilvægasta stjórntæki þjóðarinnar til að tryggja vandaða, gagnsæja og heildstæða ákvörðunartöku um nýtingu lands og náttúru. Biðflokkurinn sé mikilvægur fyrir þá kosti sem enn skorti fullnægjandi gögn eða þar sem umhverfis- og samfélagsleg áhrif hafi ekki verið metin til hlítar.

Fulltrúar V-lista telja að vindorkuver á Hólaheiði feli í sér stórt inngrip í viðkvæmt og víðfeðmt landsvæði, með áhrif á landslag, lífríki, upplifun og sjálfsmynd svæðisins til framtíðar. Slíkar ákvarðanir verði að taka á grundvelli vandaðs faglegrar vinnu og í sátt við náttúruvernd og lýðræðislegt ferli, en ekki einungis með tilvísun í aflgetu, flutningskerfi eða arðsemi.

Í lok bókunar V-lista er sveitarfélagið hvatt til að standa vörð um rammaáætlun sem ferli og láta faglegt mat og langtímahagsmuni samfélagsins ráða ferðinni.