Boranir á hitastigulsholum standa nú yfir í nágrenni Húsavíkur á vegum Orkuveitu Húsavíkur, og eru það Vatnsboranir ehf. sem annast verkið. Jarðfræðingar ÍSOR munu síðan greina gögnin og meta hvar líklegast sé að finna heitt vatn til framtíðar. Í þessari umferð verða boraðar alls sjö holur, þar af þrjár á Bakkasvæðinu þar sem kortlagt er hvort jarðsjór geti nýst til landeldis.
Leitin hófst árið 2023 og hefur verið borað í tólf holur frá upphafi. Borað er 70–90 metra niður til að mæla hitastig og greina misgengi og sprungur sem gætu bent til jarðhita. Ýmislegt forvitnilegt hefur komið í ljós, meðal annars óvænt kalt vatn sunnan við bæinn og jarðlög sem ekki voru þekkt á svæðinu.
Markmiðið er að tryggja Húsavík öruggar og sjálfbærar orkulindir til framtíðar, hvort sem um ræðir húshitun, atvinnuuppbyggingu eða landeldi á Bakka, að því er fram kemur í tilkynningu frá Norðurþingi.

