Norðurþing leitar að verkefnastjóra uppbyggingar á Bakka

Sveitarfélagið Norðurþing hefur auglýst laust til umsóknar starf verkefnastjóra atvinnuuppbyggingar á Bakka, með starfsstöð í Norðurþingi. Grænn iðngarður á Bakka hefur verið í þróun undanfarin ár og fram undan eru samningaviðræður og undirbúningur næstu stóru uppbyggingarverkefna á svæðinu, að því er fram kemur á vef sveitarfélagsins.

Leitað er að öflugum og lausnamiðuðum einstaklingi sem hefur innsýn í fjárfestingar og reynslu af því að koma umfangsmiklum verkefnum á koppinn. Verkefnastjórinn mun leiða þróun græns iðngarðs, styðja fjárfesta með greinargóðum upplýsingum og samhæfa vinnu lykilaðila að stórum fjárfestingum. Þá felur starfið einnig í sér vinna með hringrásarverkefni, markaðssetningu, samfélagslega samþættingu og eflingu þekkingar í samstarfi við hagaðila.

Umsækjendur þurfa að búa yfir fjölbreyttri starfsreynslu, góðri samskiptahæfni og áhuga á nýsköpun, orku- og umhverfismálum. Reynsla af fjárfestingarsókn, samningagerð og teymisvinnu er mikill kostur. Ráðning er til tveggja ára og óskað er eftir að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Starfið heyrir undir framkvæmdastjóra Græns iðngarðs ehf. Umsóknarfrestur er til og með 8. desember 2025.