Patrick De Wilde nýr þjálfari meistaraflokks karla hjá Völsungi

Knattspyrnudeild Völsungs kynnti í kvöld nýjan þjálfara meistaraflokks karla á fjölmennum fundi með stuðningsfólki og fjölmiðlum á Gamla Bauk. Nýr maður í brúnni er Belginn Patrick De Wilde, reynslumikill knattspyrnuþjálfari sem hefur starfað víða um heim.

Patrick De Wilde, fæddur 19. apríl 1964, hefur lifað og hrærst í knattspyrnuheiminum alla sína ævi. Ferill hans er bæði fjölbreyttur og alþjóðlegur, en hann hefur starfað sem þjálfari, aðstoðarþjálfari, tæknilegur ráðgjafi og leikgreinandi. Hann hefur meðal annars þjálfað aðallið í Belgíu, Kína, Íran, Sádi-Arabíu og Túnis.

Auk þess hefur Patrick verið aðstoðarþjálfari ungverska landsliðsins og var síðast landsliðsþjálfari kvennalandsliðs Nepal. Þekking hans á leiknum spannar því ólíka knattspyrnumenningu og stig, allt frá félagsliðum til landsliða.

Forsvarsfólk Knattspyrnuráðs Völsungs segist hlakka mjög til samstarfsins og að kynna Patrick fyrir Völsungum og Húsvíkingum. Með ráðningu hans er ljóst að félagið horfir metnaðarfullt til framtíðar og vill styrkja stöðu sína.

Nánar verður sagt frá fundinum á næstu dögum, en þar voru kynntir nýir leikmenn og nýr aðal styrktaraðili félagsins.

Ljósmynd: Örlygur Hnefill