Alþingi hefur samþykkt breytingar á innviðagjaldi farþega skemmtiferðaskipa, en gjaldið hefur verið lækkað úr 2.500 krónum í 1.600 krónur á sólarhring. Breytingartillagan var samþykkt einróma því 57 þingmenn viðstaddir kusu með breytingunni en sex voru fjarverandi. „Sú staðreynd að meirihluti Alþingis sendir svona skýr skilaboð til útgerða skemmtiferðaskipa mun skipta miklu máli fyrir framtíð greinarinnar á Íslandi,“ segir Sigurður Jökull Ólafsson, framkvæmdastjóra Cruise Iceland í samtali við Húsavík.com og bætir við að sjaldan sjáist þingið sameinast jafn skýrt um leiðréttingu á mistökum.
Hafnasjóður Norðurþings vill sjá stöðugleika
Húsavík.com ræddi við Bergþór Bjarnason fjármálastjóra Norðurþings, en Hafnasjóður Norðurþings hefur beitt sér mikið í málinu. Bergþór segir stjórn Hafnasjóðs fagna þeirri leiðréttingu sem samþykkt var á Alþingi. „Hafnasjóður Norðurþings leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að fyrirsjáanleiki sé um gjaldtöku á skemmtiferðaskip til framtíðar,“ segir Bergþór.
Þessi algjöri viðsnúningur stjórnvalda kemur í kjölfar mikillar gagnrýni frá hafnarsjóðum og aðilum í ferðaþjónustu um allt land, sem hafa varað við alvarlegum afleiðingum gjaldtökunnar. Hafnir víðsvegar um land hafa þegar séð verulegan samdrátt í bókunum skemmtiferðaskipa fyrir næsta ár vegna álagana.
Ólíklegt að mikill bati verði fyrir árið 2026
Sigurður Jökull segir skemmtiferðaskipageirann skipta gríðarlegu máli fyrir mörg byggðarlög. „Skemmtiferðaskipageirinn á Íslandi má líkja við læk sem gríðarlegur fjöldi aðila víðs vegar um landið drekka úr,“ segir hann og bendir á að á mörgum stöðum hafi önnur atvinnutækifæri dregist saman, án þess að ferðamannastraumur suðvesturhornsins nái þangað til jafns.
Þrátt fyrir breytinguna segir hann ólíklegt að mikill bati verði í bókunum fyrir árið 2026, en jákvæðari straumar séu farnir að sjást fyrir árin 2027 og 2028. „Viðsnúningurinn sem orðið hefur hér á landi er algjörlega einstakur og sýnir styrk okkar í að bregðast hratt við,“ segir Sigurður Jökull að lokum.

