Leikstjórinn Karen Erludóttir hefur verið áberandi í menningarlífi á Húsavík undanfarin ár og hefur staðið í fararbroddi leiklistarvakningar meðal barna og ungmenna í bænum, þar sem sköpunargleði, sjálfstraust og samvinna eru í forgrunni. Samstaf hennar við nemendur í Borgarhólsskóla og Framhaldsskólanum á Húsavík hefur vakið mikla athygli og ljóst að framtíðin er björt fyrir leiklistarlíf í bænum með þennan fjölda upprennandi leikara. Í sunnudagsviðtalinu ræðir Örlygur Hnefill við Kareni um upphafið, aðferðirnar og hvað það hefur gefið henni að koma af stað leiklistarbyltingu meðal ungs fólks í bænum.
Karen hefur verið listræn og skapandi frá unga aldri, en hvað var það sem kveikti leiklistaráhugann í upphafi. „Alveg frá því að ég man eftir mér hefur leiklistin, og þá sérstaklega leikhúsið, átt hug minn allan. Mamma fór með mig á mína fyrstu leiksýningu þegar ég var 3 ára, en það var Galdrakarlinn í Oz hjá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs. Þá hafði hún víst reynt að fara með mig í bíó áður en ég hafði meiri áhuga á poppinu á gólfinu heldur en teiknimyndinni á skjánum, átti erfitt með að sitja kyrr og fannst lítið gaman. En þegar ég fór á þessa leiksýningu þá sat ég hinsvegar dáleidd frá upphafi til enda, svo ætli það hafi ekki verið kveikjan. Mamma reyndi að fara með mig eins oft og hún gat í leikhús sem barn þar sem hún sá strax að þetta væri eitthvað sem ég elskaði. Í mörg ár svaraði ég spurningunni Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? með því að svara, rígmontin, Ég ætla að verða Laddi. Ég hugsaði bara að það yrði einhver að taka við keflinu þegar hann myndi setja sína leiklistarskó á hilluna og ég ætlaði svo sannarlega að taka það að mér,“ segir Karen
Karen var ekki há í loftinu þegar hún fór að halda sínar eigin leiksýningar í stofunni heima. „Þær voru vissulega mis góðar, en ég fann þó alltaf fyrir sama eldmóði og gleði, eitthvað sem ég fann ekki í sama mæli í neinu öðru sem ég tók mér fyrir hendur. Ef mamma hafði ekki tíma til að horfa leiksýningu númer þrjátíuogníuþúsund þá dó ég samt ekki ráðalaus. Það var til myndbandstökuvél á heimilinu. Svo ég tók bara upp sýningarnar mínar, horfði á þær sjálf og spáði í hvað betur mætti fara. Eftir að ég fór á gelgjuna hætti ég að biðja mömmu að horfa, en ég gerði þetta þó vandræðalega lengi í laumi, þá með mína eigin myndavél.“
Flutti 10 ára til Húsavíkur
Karen var 10 ára gömul þegar hún flutti til Húsavíkur, uppfull af áhuga á leiklist. Hvernig var leiklistarlífið hér á Húsavík þegar þú varst að vaxa úr grasi og varst þú þátttakandi í því? „Ég tók auðvitað þátt í öllum skemmtunum og leikritum í skólanum og elskaði það, var meira að segja stundum sjálfboðaliði í leikritum hjá öðrum bekkjum, bara til að geta komið fram. En fyrir utan skóla þá var auðvitað Leikfélag Húsavíkur starfandi, en ég þekkti engan þar. Ég fór vissulega á allar sýningar sem voru í boði en vissi ekki hvernig eða hvort ég gæti verið með. En ég var alltaf að spyrjast fyrir og endaði það þannig að 14 ára gömul lék ég fyrst með Leikfélagi Húsavíkur í Einu sinni var, sem var einskonar samsuða af nokkrum vinsælum verkum sem LH hafði sett upp áður. Þar var ég í fyrsta skiptið á ævi minni í hóp með fólki sem elskaði leikhúsið og fann strax að þarna ætti ég heima. Ekki af því að mér fannst ég svo góð í að leika, reyndar þvert á móti, heldur leið mér hvergi eins vel og í leikhúsinu. Næst tók ég svo þátt í Fólkinu í Blokkinni með LH og svo náði ég einu leikriti með Píramus og Þispu áður en ég flutti til Akureyrar, en það var Mega Mánaðarins eftir Snæbjörn Ragnarsson.“
Hvernig voru framhaldsskólaárin, var mikil leiklist í þínu lífi þá? „Ég var fyrsta árið mitt í FSH og tók mjög virkan þátt í uppsetningu Mega Mánaðarins og naut mín í botn. En ég flutti til Akureyrar og fór í VMA eftir fyrsta árið en leikfélagið þar var ekki starfandi þá og ég ekki með kjarkinn til að starta því. En ég átti alltaf kort í leikhúsið og fór á flestar leiksýningar sem Akureyri hafði upp á að bjóða á þeim árum ásamt því að horfa mikið á allskonar leiklistarfræðslu á YouTube.“

Fór í leyniför til að elta stóra drauminn
Hvað varð til að þú tókst stökkið að fara út í leiklistarnám? „Góð spurning. Því þó ég hafi alltaf elskað leiklistina afar heitt þá fannst mér ég sjálf ekki góð leikkona og hafði því aldrei trú á að ég kæmist í neinn leiklistarskóla, enda þarf maður að komast í gegnum áheyrnarprufur til þess. En þegar ég var í framhaldsskóla byrjaði ég að hafa mikinn áhuga á barnasálfræði og elskaði að vinna með börnum svo ég hóf nám í sálfræði í Háskólanum á Akureyri. Námið þótti mér mjög áhugavert og fannst spennandi tilhugsun að vera að vinna að því að verða barnasálfræðingur. Mér fannst ég samt alltaf vera að fara eftir plani B án þess að hafa nokkurn tíman reynt á plan A og náði ekki að hrista þá tilfinningu af mér. Hver byrjar bara á plani B? Það er glatað. Ég hafði auðvitað undanfarin ár mikið skoðað leiklistarskóla hér á landi og út í heimi, hvað væri lánshæft hjá LÍN og fleira og var fyrir löngu komin með drauma skóla og plan, var bara handviss um að ég kæmist ekkert inn. En þeim mun fleiri mánuðum sem ég eyddi í sálfræðina, þeim mun háværari var röddin í hausnum á mér að ég gæti ekki bara sætt mig við plan B án þess að reyna plan A. Ég ákvað því að fara í háleynilega ferð til að fara í áheyrnarprufur fyrir drauma skólann. Ég segi háleynilega, því það vissi enginn af því sem ekki þurfti að vita það, því ég var handviss um að ég kæmist ekki inn og langaði svo sannarlega ekki að flagga því fyrir framan alla. Ég var í raun bara að fara í þessa áheyrnarprufu til að friða sjálfa mig, því með henni gæti ég þó allavega sagt að ég hafi reynt plan A. Í dag efast ég þó um að það eitt hefði dugað til, ég hefði sjálfsagt endað á að reyna eitthvað annað því ég gat ekki hunsað þessa hlið af mér lengur. En maður er oftast sinn harðasti gagnrýnandi því ég vissulega komst inn í skólann og fékk meira að segja hæsta svokallaðan Talent Based styrk til að stunda námið, svo þessi áheyrnarprufa gekk mun betur en ég þorði nokkurn tíman að vona. Ég kvaddi því Háskólann á Akureyri og flutti til Los Angeles til að ná mér í gráðu í leiklist frá New York Film Academy.“
Var það stór ákvörðun að koma aftur heim og leggja leiklistina fyrir þig hér á Húsavík? „Þegar ég flutti til Húsavíkur 10 ára, eftir að hafa búið lengi í Reykjavík, þá varð ég fljótt harðákveðin í því að ég myndi ekki ala mín börn upp í Reykjavík. Mér fannst frelsið sem fylgdi því að búa á svona litlum stað geggjað! Mamma sagði mér bara að vera komin heim í kvöldmat en annars mátti ég bara ráða mér svolítið sjálf. Ég þurfti ekki að bíða eftir að mamma gæti skutlað mér hingað og þangað því ég gat labbað sjálf á alla staði, ég var alltaf velkomin í öll hús án þess að mamma þyrfti sérstaklega að hafa samband við aðra foreldra fyrst og svona mætti lengi telja. Þetta var frelsi sem ég vildi bjóða mínum börnum uppá líka. En ég hef alltaf þráð að vera mamma, alveg jafn mikið og ég þráði leiklistina, og ég er enn alveg jafn ákveðin í því að vilja ala börnin mín upp á Húsavík. Mörgum finnst það skrítið val að hafa flutt til Húsavíkur aftur eftir útskrift, en ekki til Reykjavíkur til að reyna almennilega fyrir mér sem leikkona þar og ég skil alveg hvaðan þau eru að koma. Flestir tengja leiklistina við frægð en draumurinn minn hefur aldrei verið að verða fræg leikkona(svona fyrir utan þegar ég ætlaði að taka við keflinu af Ladda), heldur bara að geta starfað við leiklistina. En með því að flytja til Húsavíkur, eignast þar og ala upp börn og skapa rými til að vinna í leiklistinni var ég að uppfylla alla mína stærstu drauma. Tala nú ekki um þegar ég fæ að vinna með uppáhalds unglingunum mínum í leikhúsinu, því þar spilar áhuginn á barnasálfræði líka stóran part. Það er nefnilega ekkert grín að vera þetta ung og þurfa að takast á við allskonar áskoranir upp á sviði án þess að vera með neina reynslu úr leikhúsinu. Ég get ekkert bara sagt krökkunum að gera hvað sem er, ég þarf að mæta þeim þar sem þau eru, hlusta og hjálpa þeim að finna kraftinn sem þarf til að geta staðið í báðar fæturnar upp á sviði með fullan sal af fólki. Það er í alvöru, það skemmtilegasta sem ég geri og alveg óvart hef ég nú hálfpartinn sameinað plan A og B í eina drauma vinnu.“
Hvaða verkefni hefur þú verið að vinna hér á Húsavík í leiklist? „Ég hef mest verið að vinna með unga fólkinu okkar og hef leikstýrt einu stuttverki eftir leiklistarnámskeið sem ég hélt fyrir börn á aldrinum 10-14 ára, einu 7. bekkjarleikriti, einu leikriti fyrir Þjóðleik(samstarf Þjóðleikshússins með unglingum um land allt), átta 10. bekkjarleikritum og sex leikritum fyrir Píramus og Þispu. Eins hef ég skrifað handrit fyrir sviðið upp úr tveimur bíómyndum, annað var fyrir 10. Bekk og var upp úr myndinni 10 Things I Hate About You og hitt The Wedding Singer fyrir Píramus og Þispu. Svo er ég með nokkur handrit í “drafts” í tölvunni minni sem er bara sprottið upp úr mínu eigin höfði eða jafnvel uppfærsla af leikritum eftir afa minn, sem var skáld. En það er ekkert sem er tilbúið til birtingar eða sviðsetningar, bara eitthvað sem ég hef dundað mér við í mínum frítíma.
Ég kenndi líka leiklist um tíma í Borgarhólsskóla og tók á móti öllum bekkjum þar, það var allra besta átta til fjögur vinna sem ég hef unnið. En fyrir utan vinnuna með unga fólkinu hef ég líka verið að vinna með Leikfélagi Húsavíkur. En hef þó bara náð að leika í einu verki eftir útskrift, en þau eiga eflaust eftir að verða fleiri. Annars er ég á öðru ári í stjórn Leikfélagsins svo þó ég hafi ekki verið á sviði nema einu sinni þá hef ég verið að brasa ýmislegt annað baksviðs, sem mér finnst líka ótrúlega skemmtilegt.“

Að mæta ungu fólki með virðingu, skilningi og hlýju
Hvað hefur þú haft að leiðarljósi í vinnu með ungmennum? „Að mæta þeim alltaf með virðingu, skilningi og hlýju. En númer 1, 2 og 3 að gefa þeim rödd. Það eru þau sem standa á sviðinu, sjá um búninga, sviðsmynd, hár og smink og allt það sem þarf að sinna þegar kemur að því að setja upp leiksýningu og því finnst mér afar mikilvægt að þau hafi eitthvað um málið að segja. Ég leyfi þeim því alltaf að velja leikrit sjálf, því hvert verk hefur misjafnar áskoranir og ég vil að þau velji hvað þau treysta sér í hverju sinni. Ég er svo í gegnum ferlið alltaf opin fyrir uppástungum og oft koma þau með algjörlega brilliant hugmyndir sem ég hika ekki við að gera að veruleika. Ég vil að þau upplifi að þau geti haft áhrif og að á þau sé hlustað. Því þrátt fyrir ungan aldur geta þau vel sýnt mikla ábyrgð, dugnað og seiglu – ef þeim er bara gefið tækifæri til þess.“
Hvað er það sem leiklistin gefur þér? „Hvar á ég að byrja? Hvað gefur hún mér ekki? Því svona fyrir utan gleðina, adrenalínkikkið, félagsskapinn, hlátursköstin og útrásina fyrir sköpunargleðina þá fyrst og fremst veitir hún mér frelsi. Frelsi til að vera hver sem er og gera hvað sem er. Því sögurnar, hvort sem þær eru skrifaðar fyrir sviðið eða kvikmynd/þætti, eru oftar en ekki um stórbrotna karaktera sem jafnvel lenda í/gera eitthvað sem við flest upplifum aldrei. En með leiklistinni fær maður það frelsi að skilja sjálfan sig eftir og vera einhver annar á meðan, prufa eitthvað galið án raunverulegra afleiðinga. Þú finnur slíkt frelsi hvergi annarsstaðar og er að mínu mati algjörlega ómetanlegt. Því það er heilmikill lærdómur og viska sem maður uppsker svo í endann.“
Leiklistarbylting á Húsavík
Hvernig er tilfinningin að vera búin að koma af stað leiklistarbyltingu hér í samfélaginu? „Ég hef nú aldrei litið á þetta sem leiklistarbyltingu, né heyrt neinn annan segja það. En mér þykir ofboðslega vænt um að heyra það frá þér, ég verð bara hálf meyr ef ég á að segja eins og er. Það skiptir öllu máli að börn og unglingar fái að prufa eins fjölbreyttar tómstundir og hægt er því öll viljum við tilheyra og finna okkar hillu í lífinu. Við erum ekki öll steypt í sama mót og ég efast ekki um að leikhúsið hafi hjálpað þónokkrum unglingum að finna sína hillu, hvort sem það er leiklistarhillan sjálf eða eitthvað gjörólíkt sem þau fengu að prufa því handritið bauð upp á það. Svo er bara svo ofboðslega fallegt og dýrmætt að sjá hvað hóparnir þjappast saman og vinna öll saman að sama markmiði. Það eru algjör forréttindi að fá að taka þátt í þessu með krökkunum og fylgjast með þeim blómstra. Mér finnst ég ekkert eðlilega heppin,“ segir Karen að lokum.







